Nú er ekki seinna vænna að fastsetja dagskrá fjallvegahlaupaverkefnisins sumarið 2016, sem er eins og alþjóð veit síðasta sumar verkefnisins. Það hefur vafist fyrir mér að koma þessari dagskrá saman enda ljóst að hún verður meira krefjandi en nokkru sinni fyrr. Þetta leit allt vel út í árslok 2014, 8 sumur og 40 hlaup búin og 2 sumur og 10 hlaup eftir, alveg eins og það átti að vera. En sumarið 2015 brá svo við að af ólíkum ástæðum kláraði ég ekki nema 3 hlaup og á því 7 stykki eftir fyrir þetta síðasta sumar. Og ég var löngu búinn að ákveða að síðasta hlaupið skyldið hlaupið 23. júlí, þannig að tíminn er frekar naumur. Á dagskránni þarf líka að vera pláss fyrir Þrístrending, Hamingjuhlaup, einhver keppnishlaup og jafnvel fyrir verkefni á borð við vinnu og fjölskyldu. En hvað um það. Fjallvegahlaupadagskráin liggur fyrir og verður tíunduð í þessum pistli, með venjulegum fyrirvara um breytingar.

1. Arnardalsskarð, laugardag 21. maí 2016 (Hlaup #44)
Arnardalsskarð er um 14 km leið þvert yfir Snæfellsnes frá Bláfeldi í Staðarsveit til Grundarfjarðar. Leiðin er brött upp að sunnanverðu og fer líklega í 700 m hæð þar sem hæst er. Þar uppi má búast við snjó á þessum árstíma, en það ræðst eðlilega af veðurfari næstu mánaða. Líklega verður lagt í hann strax eftir hádegi, t.d. kl. 13:00, en það verður nánar kynnt þegar nær dregur.

2. Svínbjúgur, þriðjudag 24. maí 2016 (Hlaup #45)
Svínbjúgur er gömul leið úr Hörðudal suður að Hítardal á Mýrum. Þessi leið er lengi búin að vera í sigti hjá mér, en ég hafði upphaflega hugsað mér að hlaupa hana til norðurs. Nú er ég búinn að skipta um skoðun og ætla að hefja hlaupið við Hól í Hörðudal. Vegalengdin gæti verið allt frá 22 km upp í 30 km. Síðarnefnda talan gildir ef hlaupið er alla leið til bæjar í Hítardal. Býst við að sú verði raunin. Sjálfur þekki ég ekki leiðina, en Jónas Kristjánsson segir að þetta sé „skemmtilegasta leiðin um hálendið milli Mýra og Dala, enda er hún með öllu ófær jeppum“. Þarna á ég líka eftir að ákveða nákvæma tímasetningu, en fyrsta tillaga er að leggja af stað úr Hörðudal kl. 16:00. Þetta er jú á virkum degi.

3. Þingmannavegur/Vaðlaheiði, laugardag 11. júní 2016 (Hlaup #46)
Þingmannavegur er gömul leið yfir Vaðlaheiði, frá Eyrarlandi í Eyjafirði að Hróarstöðum í Fnjóskadal. Þetta munu vera 12 km og á leiðinni gefur að líta dæmi um einkar vandaðar veghleðslur frá fyrri tíð. Ég geri ráð fyrir að leggja af stað úr Eyjafirði kl. 13:00, þar til annað verður ákveðið.

4. Kiðaskarð, sunnudag 12. júní 2016 (Hlaup #47)
Kiðaskarð er um 17 km löng leið frá Mælifelli í Skagafirði að Stafnsrétt í Svartárdal. Mér skilst að þessi leið sé jeppafær að sumarlagi og mesta hæð í skarðinu er líklega um 550 m.y.s. Býst við að leggja af stað frá vegamótum við Mælifellsá kl. 13:00.

5. Þrístrendingur, laugardag 18. júní 2016
Sumarið 2016 verður Þrístrendingur hlaupinn í sjöunda sinn. Lagt verður upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10:30 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, því að þessar leiðir hef ég farið oft áður. En þessi hlaup eru alltaf skemmtileg! Ferðasögur frá liðnum sumrum eru geymdar í gagnaverum víða um heim. Dæmi um það er ferðasagan frá sumrinu 2015.

6. Hamingjuhlaupið, laugardag 2. júlí 2016
Þennan dag verður kominn tími á 8. Hamingjuhlaupið, en það tilheyrir flokki gleðihlaupa rétt eins og Þrístrendingur. Þarna er hlaupið eftir fyrirfram gerðri tímaáætlun sem svipar mjög til strætisvagnaáætlunar. Hamingjuleiðin 2016 er ekki endanlega ákveðin en flest bendir til að hlaupið hefjist í Bjarnarfirði syðri. Alla vega lýkur því á Hólmavík, enda er viðburðurinn hluti af hinni sívinsælu bæjarhátíð Hamingjudögum. Vegalengdin verður sennilega með styttra móti þetta árið, varla mikið meira en 25-30 km. Þetta verður allt kynnt miklu betur þegar nær dregur.

7. Klofningsheiði, fimmtudag 14. júlí 2016 (Hlaup #48)
Hlaupið yfir Klofningsheiði hefst á Flateyri. Þegar komið er niður af heiðinni er hlaupið niður Sunddal og Staðardal til Keravíkur, út fyrir Spilli og inn til Suðureyrar við Súgandafjörð. Leiðin upp er brött og hæst er farið í rúmlega 600 m hæð. Vegalengdin er áætluð um 14 km.

8. Vesturgatan, sunnudag 17. júlí 2016
Það vill svo skemmtilega til að Hlaupahátíðin á Vestfjörðum verður einmitt haldin dagana eftir Klofningsheiðarhlaupið. Hátíðin hefst á fimmtudag eða föstudag og nær hápunkti með Vesturgötunni á sunnudag. Þar ætla ég að vera, enda fær maður hvergi betri móttökur. Vesturgatan er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu en ég nefni hana hérna samt. Hún fellur svo vel að þessu öllu saman. Mæli með að hlauparar fjölmenni þangað.

9. Sléttuheiði, þriðjudag 19. júlí 2016 (Hlaup #49)
Hlaupaleiðin sem um ræðir liggur frá Sæbóli í Aðalvík, inn Staðardal, upp Fannadal, yfir Sléttuheiði og inn Hesteyrarbrúnir að Hesteyri. Leiðin er greiðfarin en gróf og eitthvað um 14 km að lengd. Siglt verður með báti frá Ísafirði að Sæbóli kl. 9 um morguninn og til baka frá Hesteyri um kl. 18:30. Þeir sem ekki treysta sér til að hlaupa Sléttuheiðina geta keypt sér gönguferð með leiðsögn þessa sömu leið og eru bátsferðirnar þá innifaldar. Það er með öðrum orðum frekar einfalt að gera meira en bara hlaupaferð úr þessu. Bátsferðin ein og sér kostar tæplega 20 þús. kr. báðar leiðir og gönguferðin tæplega 30 þús. kr. með siglingum. Ef 10 manns taka sig saman og mynda hóp fæst afsláttur.

10. Arnarvatnsheiði, laugardag 23. júlí 2016 (Hlaup #50)
Arnarvatnsheiðin verður síðasti fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu. Lagt verður af stað kl. 5:00 árdegis úr Miðfirði þar sem Arnarvatnsheiðarvegur hefst og endað í námunda við Kalmanstungu í Borgarfirði um kl. 18:30. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar er þessi spölur 81,41 km og þar með langlengsti fjallvegurinn í verkefninu. Að hlaupi loknu verður fjallvegahlaupaverkefnið kvatt með formlegum hætti og verður sá viðburður kynntur nánar fljótlega.

Sem fyrr segir er þetta allt birt með fyrirvara um breytingar. Þær verða kynntar jafnóðum og þeirra verður vart.

Vonast til að njóta félagsskapar sem flestra á þessu síðasta sumri fjallvegahlaupaverkefnisins. Gott er að fá sem mest viðbrögð við dagskránni sem fyrst. Þá er líka auðveldara að laga áformin að „þörfum markaðarins“.

Í fjallvegahlaupum er alltaf gaman og alltaf gott veður (ja, nema kannski stundum). Þessi mynd er tekin í Gervidal á leið upp á Skálmardalsheiði í ágúst 2014.

Í fjallvegahlaupum er alltaf gaman og alltaf gott veður (ja, nema kannski stundum). Þessi mynd var tekin í Gervidal á leið upp á Skálmardalsheiði í ágúst 2014. Þá var gott veður en ekki átakanlega hlýtt.