Fjallvegahlaupin mín skiptast eiginlega í þrjá verkþætti. Fyrst þarf að velja leiðir og taka saman ýmsan fróðleik um þær. Svo þarf að hlaupa þessar leiðir. Síðasti verkþátturinn er að skrifa ferðasöguna. Sá verkþáttur á það til að dragast, en myndir úr ferðalögunum hressa upp á minnið þegar loks er sest niður við sagnaritun.

Þegar þetta er skrifað hafa 43 fjallvegir verið hlaupnir en um 10% af ferðasögunum eru enn óskrifaðar. Í gær birtist saga af Reykjaheiði frá því í ágúst 2014 og uppi eru fögur áform um að ljúka öðrum skrifum hið fyrsta. Reyndar er skrifum seint fulllokið því lengi er hægt að lagfæra og bæta inn upplýsingum og heimildum. Það gerist smátt og smátt.

Og nú styttist líka í að fjallvegahlaupadagskráin fyrir árið 2016 líti dagsins ljós. Á þeirri dagskrá verða 7 fjallvegir, fleiri en nokkru sinni fyrr. Ástæðan er sú að árið 2016 er 10. ár fjallvegahlaupaverkefnisins – og þar með líka það síðasta. Leiðirnar sjö verða hver annarri skemmtilegri.

Á hlaupum upp Reykjaheiði 7. ágúst 2014. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Á hlaupum upp Reykjaheiði 7. ágúst 2014. (Ljósm. Sævar Skaptason).