Efnisorð

Haukadalsskarð kort lmí einfÁ laugardaginn er komið að því að hlaupa yfir Haukadalsskarð frá Smyrlhóli í Haukadal í Dölum langleiðina að Staðarskála í Hrútafirði. Ætlunin er að hefja hlaupið kl. 10 árdegis og má ætla að skokkið yfir í Hrútafjörð taki 2,5 til 3,5 klst. Vegalengdin er um 20 km.

Hlaupið yfir Haukadalsskarð verður fjallvegahlaup nr. 43. Að því loknu verða því 7 fjallvegir eftir af fjallvegahlaupaverkefninu. Að meðaltali hef ég hlaupið 5 fjallvegi á ári, en verð líklega nokkuð á eftir áætlun í lok þessa árs. Haukadalsskarðið verður e.t.v. síðasti fjallvegur ársins, en enn er þó hugsanlegt að eitthvað bætist við í lok sumars eða með haustinu. Þau mál eru í athugun.

Leiðarlýsingin fyrir Haukadalsskarð er enn að mestu óskrifuð, en upplýsingar um hlaupið er annars að finna á hlaup.is. Gott væri að fá einhverja nasasjón af þátttöku fyrirfram. Það gæti auðveldað fólkflutninga milli endamarks og upphafsstaðar.

Vonast til að sem flestir sláist í för með mér á laugardaginn. Öllum er velkomið að taka þátt, enda gera hlauparar það á eigin ábyrgð.

Sjáumst við þá ekki bara á laugardaginn?