Nú er komið að því: Fyrsta fjallvegahlaup ársins og það 41. frá upphafi verður hlaupið á laugardag (30. maí). Hlaupið hefst kl. 15:00 við Rauðamelsölkeldu í Eyja- og Miklaholtshreppi og lýkur við Setberg, neðst í Litla-Langadal á Skógarströnd. Vegalengdin er u.þ.b. 20 km og hæsti punktur á leiðinni eitthvað um 250 m.y.s.

Leiðin að rásmarkinu við Rauðamelsölkeldu er auðrötuð. Frá hringtorginu á Vesturlandsvegi ofan við Borgarnes er ekið sem leið liggur til vesturs eftir þjóðvegi nr. 54 um 41 km vestur af Haffjarðará. Um það bil 2,5 km vestan við ána er beygt til hægri, ekið fram hjá Gerðubergi og staðnæmst á vesturbakka Flatnaár, tæpa 7 km frá aðalveginum.

Leiðin að endamarkinu er sömuleiðis frekar auðrötuð. Þá er ekið vestur Mýrar og síðan norður Heydalsveg (þjóðveg nr. 55). Þegar komið er norður yfir er beygt vestur Skógarströnd. Eftir um 19 km akstur er beygt inn í Litla-Langadal, en vegamótin þar láta lítið yfir sér. Frá vegamótunum er um 2 km akstur að bænum Setbergi, sem er auðþekktur af reisulegu tveggja hæða íbúðarhúsi með grænu þaki. Þar endar hlaupið sem sagt. Vegalengdin frá Borgarnesi að Setbergi er u.þ.b. 85 km. Nánari staðsetningar með gps-hnitum má sjá á fjallvegahlaup.is.

Að vanda er öllum velkomið að taka þátt í hlaupinu á eigin ábyrgð. Þátttakendur þurfa sjálfir að koma sér á upphafspunktinn og frá lokapunktinum, en af umhverfisástæðum er hvatt til að fólk sameinist um bíla eftir föngum.

Nánari upplýsingar um hlaupið er að finna á fjallvegahlaup.is og hlaup.is. Ef eitthvað er óljóst er um að gera að hafa samband í síma 862 0538 eða á stefan@environice.is.

Vonast til að sjá sem flesta á laugardaginn.

Flatnavegur kort lmí 960