Eins og fram hefur komið er Austurlandið vettvangur fjallvegahlaupa tvo næstu daga. Á dagskrá eru fjögur hlaup, sem verða fjallvegahlaup nr. 65-68 ef allt fer að óskum. Erindi þessa pistils er að rýna aðeins nánar í þessa dagskrá.
Þriðjudagur 6. júlí
Dagskrá morgundagsins er einföld. Þá ætla ég að hlaupa Hjálpleysu frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum, samtals um 16 km. Leiðin er brött á köflum en auðrötuð, því að Hjálpleysa er bara dalur og fjöllin beggja vegna svo brött að maður getur engan veginn álpast yfir þau af gáleysi. Leiðarlýsingin fyrir þessa leið er nokkurn veginn tilbúin og þar er hægt að finna einhvern viðbótarfróðleik. Þar kemur þó ekkert fram um snjóalög, sem líklega eru töluverð þegar haft er í huga að leiðin fer hæst í 768 m yfir sjó og að í þröngum dölum er sólargangurinn stuttur. Auk þess eru víða miklar fannir í fjöllum fyrir austan þetta sumarið.
Miðvikudagur 7. júlí
Dagskrá miðvikudagsins er talsvert margslungnari en dagskrá morgundagsins og heildarvegalengdin meiri. Dagurinn hefst með annarri tilraun minni til að hlaupa Víkurheiði og Dys frá ósum Ytri-Teigarár í norðanverðum Reyðarfirði yfir í Viðfjörð. Þessi leið er um 13 km og auðrötuð, enda jeppafær vegur alla leið. Helsti farartálminn er Þverá, sem kemur úr fjöllunum þarna vesturaf og rennur til sjávar í Vöðlavík. Hún á það til að vera nokkuð vatnsmikil – og ég hef frétt að sú sé einmitt raunin núna, enda mikill snjór til fjalla og síðustu dagar hlýrri en tíðkast hefur í sumar. Þegar ég reyndi fyrst að efna til fjallvegahlaups þarna yfir, sem var þriðjudaginn 4. ágúst 2015, var áin ófær gangandi fólki. Reyndar komumst við aldrei svo langt, því að vatnsveðrið var þvílíkt að við snerum við eftir tæplega 4 km brölt áleiðis upp Víkurheiði.

Þegar Víkurheiði og Dys eru að baki tekur við 4 km „ferjuleið“ frá Viðfjarðarbænum áleiðis út Barðsnes, nánar tiltekið út að Stuðlum þar sem annað fjallvegahlaup dagsins hefst. Þessi leið er greiðfarin eftir þokkalegum dráttarvélaslóða. Ég hljóp þarna einmitt í Barðsneshlaupinu 2015 og fannst það gaman.
Dagskrá þriðjudagsins hefst kl. 10 og ég ímynda mér að hlaupið yfir Víkurheiði og Dys taki í allra mesta lagi 3 klst. Með rólegu skokki út að Stuðlum ætti þá allt að vera klárt fyrir næsta fjallvegahlaup um kl. 13:30. Í svona áætlunum þarf þó alltaf að vera einhver sveigjanleiki.
Í öðru fjallvegahlaupi dagsins liggur leiðin fyrst upp frá Stuðlum yfir Sandvíkurskarð til Sandvíkur – og svo þvert yfir láglendið í Sandvík og yfir Gerpisskarð til Vöðlavíkur. Þessum tveimur skörðum var slegið saman í einn fjallveg til að ná lágmarksvegalengd fjallvegahlaupanna, 9 km. Reglur eru nú einu sinni reglur. Þetta tvískipta fjallvegahlaup er samtals á að giska 10 km og tekur sjálfsagt um 2 klst., enda fara skörðin hvort um sig í 500-700 m hæð.
Næsta verkefni verður að komast frá Vöðlum í Vöðlavík yfir að kirkjugarðinum sunnanvert í víkinni, á milli eyðibýlanna Þverár og Kirkjubóls. Þessi „ferjuleið“ er svipað löng og fyrri „ferjuleið“ dagsins og með svipuðum útreikningum og áður má áætla að hægt verði að leggja upp frá kirkjugarðinum í síðasta fjallvegahlaup dagsins kl. 16:00 eða þar um bil. Opinber tímasetning er reyndar kl. 15:30, en í svona ferðum getur margt raskað þeim áætlunum sem gerðar eru við fjarlæg skrifborð.
Þriðja og síðasta fjallvegahlaup miðvikudagsins átti upphaflega að vera yfir Sléttuskarð frá Vöðlavík til Reyðarfjarðar. Í gærkvöldi var hins vegar tekin sú ákvörðun að hlaupa frekar yfir Karlskálaskarð, en báðar leiðirnar hafa sama upphafs- og lokapunkt og eru svipað langar. Karlskálaskarð er bara einu fjalli austar og hefur þann kost að þar er stikuð gönguleið – og svo er nafnið ögn sértækara og tengdara sögu svæðisins.
Leiðin yfir Karlskálaskarð er varla meira en 8 km úr Vöðlavík að Karlskála. Hér er hins vegar gert ráð fyrir að hún sé lengd með svolitlum endaspretti inn að Ytri-Teigará til að loka hringferð dagsins. Þannig gæti þetta teygst í 13 km. Mjög lauslega áætlaður komutími að Ytri-Teigará er kl. 19:00.
Eftirfarandi tafla sýnir mjög grófa áætlun um vegalengdir og tímasetningar miðvikudagsins:

Því er svo við að bæta að fyrirhuguðu fjallvegahlaupi yfir Króardalsskarð, sem var á dagskrá laugardaginn 3. júlí sl., var frestað í öryggisskyni vegna mikils fannfergis og vatnavaxta.