Hér birtast fyrstu drög að fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2021. Eins og hún lítur út núna eru fimm hlaup á blaði, öll á Austurlandi fyrstu dagana í júlí. Trúlega á hlaupunum eftir að fjölga eitthvað, en sumarið mitt verður óvenju viðburðaríkt á öðrum sviðum og þá getur skipulagið riðlast.

Svona lítur fjallvegahlaupadagskráin 2021 út eins og staðan er í dag:

 1. Laugardagur 3. júlí 2021, kl. 13:00:
  Króardalsskarð – Úr botni Seyðisfjarðar í botn Mjóafjarðar – 11 km
 2. Þriðjudagur 6. júlí 2021, kl. 10:00:
  Hjálpleysa – Frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum – 16 km
 3. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 10:00:
  Víkurheiði og Dys – Frá Ytri-Teigará í Reyðarfirði yfir í Viðfjörð – 13 km
  Þessi leið var á dagskrá fyrra fjallvegahlaupaverkefnis 4. ágúst 2015. Lögðum af stað sex saman, en urðum frá að hverfa vegna gríðarlegs vatnsveðurs sem gekk yfir Austurland um þær mundir. Nú mun þetta örugglega ganga betur.
 4. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 13:30:
  Sandvíkurskarð og Gerpisskarð – Frá Stuðlum í Viðfirði að Vöðlum í Vöðlavík – 10 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 3.
 5. Miðvikudagur 7. júlí 2021, kl. 15:30:
  Sléttuskarð – Frá Kirkjubóli í Vöðlavík að Ytri-Teigará í Reyðarfirði – u.þ.b. 15 km
  Nákvæm tímasetning er háð því hvernig gengur í hlaupi nr. 4.

Sumarið 2021 verður fimmta sumarið í öðrum áfanga fjallvegahlaupaverkefninsins, en allt byrjaði þetta upp úr fimmtugsafmælinu mínu árið 2007. Fyrsta áfanganum lauk á sextugsafmælinu 2017 og þá var gefin út bók um 50 fyrstu leiðirnar. Bók nr. 2 með næstu 50 leiðum er svo væntanleg á sjötugsafmælinu 2027.

Fjögur fyrstu sumur annars áfanga (sumrin 2017-2020) skiluðu ekki nema þrettán fjallvegum, en ef allt hefði verið með felldu ættu helst um 20 fjallvegir að vera að baki (5 að meðaltali á ári). En enn er nógur tími og nóg til af óhlaupnum leiðum. Það ætti sem sagt ekki að vera neinn vandi að hlaupa 37 fjallvegi næstu sex sumur.

Vonandi slást sem flestir í för með mér á fjallvegunum fyrir austan í sumar, en að vanda eru allir velkomnir (á eigin ábyrgð). Breytingar á dagskránni verða kynntar á þessari síðu og á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins. Á næstu vikum verður líka settur inn einhver fróðleikur um allar þessar leiðir, eftir því sem tími vinnst til skrifta. Og til að gera enn betra sumarfrí úr þessari fjallvegaferð á Austurland er upplagt að skella sér í Dyrfjallahlaupið sem verður haldið laugardaginn 10. júlí. Þar verður hlaupin ný leið, sem reyndar fylgir að hluta til leiðinni yfir Brúnavíkurskarð og Súluskarð, sem við feðginin hlupum í þoku og rigningu sumarið 2019. Myndin sem fylgir þessari færslu var einitt tekin í þeirri ferð við neyðarskýli Landsbjargar í Brúnavík.