Siglufjarðarskarð

Staðsetning: Frá Hraunum í Fljótum til Siglufjarðar
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:             0,00 km ( 58 m), N66°05,87' - V19°04,02'
Selfjall:           2,33 km (281 m), N66°06,93' - V19°03,48'
Bílvegur:           4,40 km (492 m), N66°07,14' - V19°01,28'
Siglufjarðarskarð:  5,67 km (624 m), N66°07,39' - V19°00,16'
Lok:               10,96 km (  0 m), N66°07,83' - V18°55,44'
Hæð y. sjó: 58 m við upphaf, 624 m hæst, 0 m við lok
Samanlögð hækkun: 592 m
Vegalengd: 10,96 km 
Tími: 2:04:32 klst. 
Meðalhraði: 5,28 km/klst(11:22 mín/km)
Dags.: Mánudagur 15. júní 2020, kl. 15:01 
Hlaupafélagar: 
Birgitta Stefánsdóttir
Brynhildur Bjarnadóttir
Sigríður Bjarnadóttir
Sigríður Einarsdóttir

Fróðleikur um leiðina:

Siglufjarðarskarð var aðalleiðin úr Fljótum til Siglufjarðar allt frá því að land byggðist og þar til Strákagöng voru opnuð árið 1967. Leiðin um skarðið er afar snjóþung og hættuleg á vetrum, en þetta þótti þó alla jafna skásti kosturinn til að komast á milli byggðarlaganna, nema á þeim tíma á 18. öld þegar „andinn lá þar yfir“. Þarna var sem sagt ekki um margar góðar leiðir að velja.

Á öldum áður var Siglufjarðarskarð ekki bara erfitt yfirferðar vegna snjóþyngsla og illviðra, heldur var þar líka einhver óværa á ferð. Sagt er að Guðmundur góði hafi reynt að vígja skarðið einhvern tímann á 13. öld, en jafnvel það dugði ekki til. Um tíma áræddu menn jafnvel ekki að fara um skarðið. Í Árbókum Espólíns (IX. deild, s. 126) segir frá því að í skarðinu hafi menn séð eitthvað sem líktist skýstrokki, sem steypst hefði á ferðamenn „jafnt á degi sem nóttu … og var það þess manns bani, er fyrir varð“. Um 1730 var þetta farið að ágerast og árið 1735 „bauð … Steinn biskup Þorleifi prófasti Skaptasyni í Múla, er þá var einn haldinn mestur klerkur og andríkastur að flytja þar guðsþjónustu og bænir opinberliga“. Sagt er að séra Þorleifi hafi tekist ætlunarverkið og stefnt vondum öndum úr Siglufjarðarskarði í Afglapaskarð, sem er næsta skarð fyrir sunnan í fjallgarðinn. Þar ætti því enginn að fara, enda leiðin ekki bara hættuleg út af „andanum“, heldur líka vegna þverhnípis.

Upphaflega var Siglufjarðarskarð fjallsegg. Þá var hægt að sitja þar klofvega með annan fótinn í Skagafjarðarsýslu en hinn í Eyjafjarðarsýslu. Segir svo frá í Þjóðsögum Jóns Árnasonar (I, s. 569) að efsta brúnin hafi verið „svo þunn sem saumhögg. Gegnum eggina liggja dyr, auðsjáanlega höggnar af fornaldarmönnum. … Gegnum dyrnar eru hér um fjórar hestlengdir, en vel klyfjafrítt á breidd“. Árið 1880 voru þessar dyr lagfærðar verulega á kostnað landssjóðs. Árið 1940 var skarðið svo sprengt niður um 14 metra og í framhaldi af því ráðist í að gera bílfæran veg þar yfir. Fyrsti bíllinn ók um skarðið árið 1946 og ári síðar var vegurinn tilbúinn.

Þrátt fyrir lækkunina sem náðist með sprengingunum árið 1940 er Siglufjarðarskarð einn af hæstu og snjóþyngstu fjallvegum landsins og yfirleitt tókst aðeins að halda leiðinni opinni 4-5 mánuði á ári. Það var því mikil samgöngubót fyrir Siglufjörð þegar lokið var við gerð nýs vegar 1967 frá Fljótum út með ströndinni og í gegnum Strákagöng. Leiðinni um Siglufjarðarskarð er þó enn haldið opinni fyrir jeppa yfir sumartímann.

Vegurinn upp í Siglufjarðarskarð að vestanverðu hefur ekki alltaf legið á nákvæmlega sama stað. Bílvegurinn var þannig lagður um Hraunadal upp í svonefnd Fell, en eldri þjóðleið lá nokkru sunnar upp frá Hraunum, um Eggjar og inn Göngudal sunnan við Fell. Sú leið verður fyrir valinu hér til samræmis við afar vandað göngukort af svæðinu sem gefið var út árið 2007.

Skammt frá þeim stað þar sem hlaupið yfir Siglufjarðarskarð hefst stendur steinninn Þráinn (þ.e. „hinn þrjóski“) við áningarstað Vegagerðarinnar. Sögu Þráins má rekja aftur til áranna um 1880, en þá þvældist þessi þriggja tonna steinn fyrir vegagerðarmönnum sem áttu að lagfæra veginn um Fell. Eftir mikið erfiði tókst þeim að mjaka steininum úr vegstæðinu og gáfu þeir honum þá þetta viðeigandi nafn. Síðan hefur hann verið færður nokkrum sinnum. Á steininn risti steinsmiðurinn Myllu-Kobbi á sínum tíma vísu sem Stefán Sigurðsson á Minni-Brekku (1827-1904) orti um steinninn, en letrið mun vera orðið ógreinilegt.

Fyrsta spölinn frá Hraunum er hlaupið í norðurátt samsíða aðalveginum til Siglufjarðar en 300-400 m ofar í hlíðinni. Leiðin liggur um Ytri-Eggjabrekkur og þar er víða gott útsýni af brúnunum. Ytri-Eggjum er fylgt áfram með Selfjall á vinstri hönd og Breiðafjall á þá hægri. Við Selfjall sveigir leiðin til hægri (til austurs) inn Göngudal og síðan þvert yfir dalbotninn og áfram til austurs og norðausturs eftir grýttri slóð á norðurbrún dalsins. Sunnanvert í Fellum eykst brattinn, en Fell eru hæðirnar sem skilja að dalbotna Göngudals og Hraunadals. Eftir um 4,4 km hlaup er komið inn á bílveginn upp í skarðið inn af Hraunadal. Þarna liggur vegurinn í 492 m hæð og eftir þetta er veginum fylgt alla leið.

Siglufjarðarmegin í skarðinu „er forbrekki mikið“ eins og það er orðað í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, (JÁ I, s. 569). Leiðin liggur fyrst suður með Skarðshnjúki og suður undir Afglapaskarð, en þar er tekin kröpp vinstri beygja niður Skarðsdal og hlaupið norðurundir Þvergil. Þar eru um 8,5 km að baki. Þaðan er svo hlaupið meðfram skíðasvæði Siglfirðinga, niður sneiðinga um svonefnda Grashóla, framhjá eyðibýlinu Skarðsdal og skóginum við Skarðdalskot sem sagður er vera nyrsti skógur á Íslandi. Endaspretturinn liggur framhjá Hóli og hlaupið endar svo þegar komið er á Siglufjarðarveg (þjóðveg 76) í fjarðarbotninum.

Ferðasagan:  

Við hittumst fjögur við Hraun í Fljótum seinni partinn á mánudegi og lögðum af stað áleiðis eftir gömlu póstleiðinni upp í Siglufjarðarskarð í góðu veðri. Leiðin upp á Eggjar var auðrötuð eftir breiðri og greinilegri götu, en flestar lautir voru fullar af snjó og þá var bara að fara beint af augum. Fyrstu kílómetrar ferðalagsins voru frekar tíðindalitlir og á þeim kafla tala myndirnar sínu máli.

Tilbúin að leggja í hann. F.v. Gitta, SG, Brynhildur, Sigríður B og Sigríður E. (Ljósm. Björk Jóhanns).
Nýlagðar af stað upp gömlu póstleiðina frá Hraunum.
Horft til baka niður að Hraunum. Aftar sér yfir Miklavatn og yfir í mynni Flókadals.
Horft til baka eilítið ofar í hlíðinni. Um 1,3 km og 17 mín að baki.
Brynhildur komin upp á Ytri-Eggjar. U.þ.b. 1,8 km að baki.
Gitta á Ytri-Eggjum. Í baksýn sést yfir í Haganesvík og fjær lengra inn eftir Skagafirði, jafnvel í toppinn á Málmey. Lengst til hægri sést niður á bílveginn upp í skarðið. Skyggni ágætt. Það átti eftir að breytast.
Sigríður E. komin fram hjá Selfjalli, sem er eiginlega frekar hóll, og lögð af stað inn Göngudal. 3 km og 37 mín. að baki.

Þegar við vorum komin inn í Göngudal sáum við betur en áður hversu snjóþungt vorið hafði verið á þessum slóðum. Leiðin liggur inn sunnanverðan dalinn og þar birtist gatan okkur annað slagið þar sem holt stóðu upp úr fönnum. Þetta var því auðratað, enda veðrið gott. Dalbotninn var á kafi í snjó en Fellin stóðu upp úr.

Á leið inn Göngudal. Nóg af snjó.
Innst í Göngudal á leið þvert norður yfir dalbotninn. 3,7 km og 50 mín. að baki.
Horft til baka niður Göngudal úr dalbotninum. Vegurinn til Siglufjarðar sést þarna neðst í dalnum.
Síðasti hluti gömlu póstleiðarinnar áður en komið er upp á bílveginn ofan við Fell. Fell eru hæðirnar sem skilja að dalbotna Göngudals og Hraunadals.

Fljótlega eftir að við vorum komin inn á bílveginn ofan við Fell áttuðum við okkur á því að við myndum líklega ekki fylgja veginum upp í skarðið, nema þá fyrir einstaka tilviljun. Vegurinn er þarna skorinn inn í bratta hlíð og þegar við horfðum upp í hlíðina sáum við ekkert nema snjó. En áfram skyldi haldið. Hliðarhallinn í fönnunum utan í hlíðinni var ævintýralegur og við þurftum svolítið að hafa fyrir því að móta spor í snjóinn. Á þessum tímapunkti var ég þakklátur fyrir að vera í svona góðum félagsskap þar sem lofthræðsla var víðs fjarri. Engum skrikaði fótur, en eitt feilspor í þessum brekkum hefði endað í löngu rennsli. Það hefði svo sem ekki verið neitt sérlega hættulegt þar sem þarna fyrir neðan er ekkert þverhnípi. En okkur langaði samt ekkert þarna niður og bröltið upp aftur hefði orðið seinlegt og erfitt.

Á leið upp í skarðið, sem á sínum tíma var höggvið þarna í fjallsbrúnina. Kannski er bílvegurinn einhvers staðar þarna undir. Mikill hliðarhalli framundan, miklu meiri en myndin sýnir.
Pjakkað áfram og upp í snjónum. Sigríður og Sigríður í forystunni.
Komnar upp á vegbrúnina vestanmegin í skarðinu. Og allt í einu var skollin á svartaþoka, trúlega gjörningaþoka enda afar reimt á þessum slóðum frá fornu fari.
Í Siglufjarðarskarði. Náttúruöflin virðast hafa leikið þetta skilti grátt – og sömuleiðis tréverkið þarna á bakvið, sem einhvern tímann var borð og bekkir.
Siglufjarðarskarð var á sínum tíma höggvið í fjallsbrúnina, eina 14 metra niður. Á veturna hrynur greinilega úr brúnunum niður á veginn. Þokan allsráðandi Siglufjarðarmegin.
Dætur náttúrufræðingsins og fjallamannsins Bjarna E. Guðleifssonar Siglufjarðarmegin í Siglufjarðarskarði
Þarna liggur vegurinn niður úr skarðinu, fyrst dágóðan spöl meðfram fjallinu, áleiðis að Afglapaskarði, og síðan niður þaðan í sneiðingum. Þokan þéttist verulega rétt eftir að myndin var tekin. Eftir það sást lítið af veginum.
Komnar áleiðis suður eftir veginum utan í fjallinu. Þarna er„forbrekki mikið“ eins og sjá má á hallanum á skaflinum aftast á myndinni. Og af veginum sást ýmist ekkert, eða ekkert nema kanturinn. Og þar var aurbleyta.

Þegar þarna var komið áttuðum við okkur á að við gætum ekki fylgt veginum eins og upphaflega var ætlunin. Bæði var að annað slagið sáust varla handaskil vegna þoku og svo hitt að sums staðar hvarf vegurinn alveg undir snjó og þar var nánast ómögulegt að fóta sig í hliðarhallanum. Þess vegna breyttum við um stefnu og tókum strikið beint niður brekkuna. Á því ferðalagi kom bara ein stefna til greina og þess vegna engin hætta á villum þótt lítið sæist. En þetta var ekki fyrir lofthrædda.

Eftir 500 m undanhald í þokunni beint niður hlíðina komum við aftur á veginn einum sneiðingi neðar. Lækkunin á þessum stutta kafla var um 130 m, sem er með því mesta sem gerist í fjallvegahlaupum (um 26% halli). Eftir þetta var eftirleikurinn auðveldur, vegurinn orðinn snjóléttur og auðvelt að fylgja sneiðingunum áfram til byggða. Niðri við golfvöllinn beið Björk með kökur og safa og þar með lauk þessu eftirminnilegu fjallvegahlaupi.

Búnar að finna veginn neðar í hlíðinni. Þar var snjóléttara, en yfirborðið illa farið eftir veturinn.
Enn á niðurleið. Smám saman minnkuðu snjóþyngslin og vegurinn kom betur í ljós.
Á fullri ferð niður eina af síðustu brekkunum. Þokan að mestu leyti að baki.
Endaspretturinn niður með Skógræktinni í Skarðsdal.

Lokaorð:

Siglufjarðarskarð er tilkomumikill fjallvegur. Daginn sem leiðin var hlaupin voru gríðarlegar fannir uppi undir skarðinu báðum megin og erfitt að fóta sig þar í miklum hliðarhalla. Auk þess var svartaþoka í skarðinu og austuraf því og þess vegna engin leið að fullyrða nokkuð um útsýni út frá reynslu dagsins. Leiðin er annars auðrötuð og ákjósanleg til fjallvegahlaupa á björtum sumardögum.

Helstu heimildir:

  • Björn Þór Ólafsson, Hjalti Þórðarson o.fl. (2007): Gönguleiðir á Tröllaskaga II. Fljót – Siglufjörður – Ólafsfjörður – Svarfaðardalur. Háskólinn á Hólum.
  • Gils Guðmundsson (1982): Öldin sem leið – Minnisverð tíðindi 1861-1900. Iðunn, Reykjavík.
  • Jón Árnason: Þjóðsögur (Athuga betur).
  • Jón Helgason (1985): Öldin átjánda – Minnisverð tíðindi 1701-1760. Iðunn, Reykjavík.
  • Páll Sigurðsson (2016): Skagafjörður austan Vatna. Frá Hjaltadal að Úlfsdölum. Árbók Ferðafélags Íslands 2016. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
  • P. Ragnar Jónasson, Björn Þór Ólafsson, Hjörtur E. Þórarinsson, Bjarni E. Guðleifsson (1990): Fjalllendi Eyjafjarðar að vestanverðu – frá Almenningsnöf að Öxnadalsheiði. Árbók Ferðafélags Íslands 1990. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.

Þakkir:

  • Björk Jóhannsdóttir fyrir flutninga, veitingar og margs konar stuðning

1 athugasemd við “Siglufjarðarskarð”

Færðu inn athugasemd