Staðsetning: Frá Fellsendarétt í Miðdölum að Sveinatungu í Norðurárdal Áfangar og hnattstaða: Upphaf: 0,00 km ( 56 m), N64°58,22' - V21°33,07' Grafarlaug: 2,16 km (101 m), N64°57,65' - V21°30,95' Girðing við Hvanngil: 7,63 km (233 m), N64°57,22' - V21°24,78' Bifugrjótsgil: 8,75 km (267 m), N64°57,16' - V21°23,55' Á móts við Tröllakirkju: 11,08 km (429 m), N64°57,02' - V21°21,06' Merkjahryggur: 11,41 km (432 m), N64°57,11' - V21°20,75' Heydalsá: 12,08 km (319 m), N64°57,28' - V21°20,04' Sanddalur innarlega: 13,62 km (257 m), N64°57,25' - V21°18,49' Sanddalstunga: 22,84 km (138 m), N64°53,10' - V21°17,33' Lok: 27,62 km ( 84 m), N64°50,72' - V21°17,57' Hæð y. sjó: 56 m við upphaf, 432 m hæst, 84 m við lok Samanlögð hækkun: 573 m Vegalengd: 27,62 km Tími: 4:06:32 klst Meðalhraði: 6,72 km/klst(8:56 mín/km) Dags.: 8. júní 2019, kl. 10:05 Hlaupafélagar: Birkir Þór Stefánsson Gunnar Viðar Gunnarsson Gunnlaugur A. Júlíusson Helga Elínborg Guðmundsdóttir Ingveldur H. Ingibergsdóttir Kristinn Óskar Sigmundsson Pálína Kristín Jóhannsdóttir Ragnar Kristinn Bragason Sigríður Drífa Þórólfsdóttir Snæbjörn Eyjólfsson
Fróðleikur um leiðina:
Leiðin um Reykjadal er ekki fjölfarin nú til dags, en á árum áður var hún ein af fleiri samgönguleiðum á milli Dala og Norðurárdals. Hún er þó ekki nefnd meðal fjallvega á milli Dala og Borgarfjarðar í sóknalýsingu Miðdalaþinga frá 1855. Nú er helst von á hestamönnum á ferli á þessum slóðum og eins eiga smalar þarna leið um á hverju hausti, þó að liðin sé sú tíð þegar kirkjan á Sauðafelli í Dölum átti afrétt í öllum Sanddal inn af Norðurárdal.
Reykjadalur er einn Miðdala í Dölum. Neðst eru Miðdalir reyndar bara einn dalur en innan við Sauðafell klofnar hann í nokkra dali. Fólkið í Miðdölum hafði það orð á sér að vera „yfirhöfuð skikkanlegt og siðsamt, einnig skilríkt, mikið trúrækið og stundar yfrið vel uppfræðing unglinga. Nokkuð fastheldið við fornar góðar og meinlausar venjur, en hafnandi hinum. Allir rétt vel læsir, margir skrifandi og nokkrir temja sér reikninglist. Bágt er að koma hér á almennum félagsanda. Söngmenn eru hér engir teljandi“. (Vigfús Reykdal, bls. 750).
Ferðin inn Reykjadal hefst við Fellsendarétt, skammt frá aðalveginum niður af Bröttubrekku. Réttin var byggð á þessum stað árið 1955, en áður var réttað í hlaðinni steinrétt handan við ána og nokkru neðar. Fyrstu tvo kílómetrana er hlaupið eftir bílfærum vegi inn með Reykjadalsá að sunnanverðu að Grafarlaug, sem Ungmennafélagið Æskan í Miðdölum steypti árið 1956. Laugin var gerð mikið upp á 2. áratug 21. aldar og er stundum í notkun. Þarna er talsverður jarðhiti sem stafar í raun frá Reykjadalseldstöðinni sem gegndi mikilvægu hlutverki við mótun svæðins fyrir nokkrum milljónum ára. Svæðið sér m.a. íbúum Búðardals fyrir heitu vatni. Hinum megin við ána blasir Fellsendaskógur við, gamall náttúrulegur birkiskógur.

Skammt frá Grafarlaug er vaðið norðuryfir ána og haldið áfram inn með henni norðanverðri (með ána á hægri hönd). Vaðið er alla jafna vatnslítið og jafnvel hægt að stikla á steinum. Eftir u.þ.b. 6 km hlaup er svo komið að Fellsendaseli sem stendur norðan við ána, neðan við Mógil. Þar var síðast haft í seli í sunnanverðum Dölum, nánar tiltekið til ársins 1904.
Um 1,6 km innan við Mógil er komið að Hvanngili, sem virðist ranglega nefnt Hrafnagil á sumum kortum. Innan við gilið er vegleg girðing og við girðingarhornið liggur leiðin niður á áreyrarnar. Þangað liggur leiðin og síðan er hlaupið eftir eyrunum og eftir atvikum í sjálfum árfarveginum. Þegar komið er þetta innarlega í dalinn má reikna með áin sé orðin vatnslítil, í það minnsta í þurrkatíð á sumrin.
Þegar u.þ.b. 8,7 km eru að baki er komið að Bifugrjótsgili, hlaupið yfir það og haldið áfram upp bratta tungu sem myndast á milli gilsins og Reykjadalsár. Þegar komið er upp tunguna blasir við einkar formfagur foss uppi í dalbrúninni vinstra megin, þar sem vatnið fellur niður í Bifugrjótsgil. Bifugrjótsgil virðist ranglega nefnt Hvanngil á sumum kortum. Einhvers staðar á þessum slóðum væri hægt að sveigja til hægri, fara suðuryfir Reykjadalsá og halda á brattann yfir Sprengibrekkubrún og yfir í Mjóadal sem sameinast Sanddal niður við Sanddalstungu. Sú leið er líklega nokkru styttri en sú sem hér er lýst, en mun erfiðari.

Innan við Bifugrjótsgil tekur við brattasti kafli leiðarinnar, þar sem áfram er haldið í austurátt eftir sæmilega greinilegri reiðgötu meðfram farvegi Reykjadalsár með stefnu á Merkjahrygg. Tæpum 2 km síðar blasir Tröllakirkja við á vinstri hönd, en þessi tiltekna Tröllakirkja er snöggtum tilkomuminni en alnöfnur hennar annars staðar á Vesturlandi. Hún sker sig þó vel úr umhverfinu, sem er annars frekar sviplítið þegar þarna er komið sögu.


Rétt austan við Tröllakirkju er hápunkti leiðarinnar náð á Merkjahrygg þar sem eru sýslumörk Dalasýslu og Borgarfjarðarsýslu. Að þessum punkti eru rétt um 11,4 km frá upphafsstaðnum og þaðan falla öll vötn til Borgarfjarðar. Leiðin liggur niður frekar brattar og gróðursnauðar brekkur niður í Heydal og síðan niður með Heydalsá að sunnanverðu (hægra megin) þar til Sanddalur opnast á hægri hönd. Um það leyti eru 13,5 km að baki og leiðin rétt tæplega hálfnuð. Sanddalur er langur.

Leiðin niður Sanddal liggur meðfram Sanddalsá að vestanverðu (hægra megin í dalnum), eftir nokkuð greinilegri reiðgötu, sem reyndar er auðvelt að týna á köflum. Lítil hætta er þó á villum þar sem allan tímann er svipaðri stefnu fylgt og alltaf er Sanddalsá skammt undan á vinstri hönd. Eftir u.þ.b. 22,8 km er komið að eyðibýlinu Sanddalstungu. Þaðan er jeppafært yfir áreyrar Mjóadalsár og áfram niður með Sanddalsá allt niður á Vesturlandsveginn um 2 km neðan við Sveinatungu í Norðurárdal. Þar endar hlaupið við hlið á veginum, en kaflinn frá Sanddalstungu er rétt um 5 km.

Fátt bendir til að byggð hafi verið innarlega í Sanddal. Þó er til munnmælasaga um að í þúfnakarga innst í dalbotninum hafi Óttar, faðir Hallfreðar vandræðaskálds, reist býlið Óttarsstaði eftir að hann var gerður útlægur úr Vatnsdal. Annars er Sanddalstunga sennilega fyrsti bærinn á þeirri leið sem hér um ræðir. Hún þótti góð sauðjörð þegar fé var haldið til vetrarbeitar, en jörðin fór í eyði árið 1974. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín á smábýlið Brandakot einhvern tímann að hafa staðið í landi Sanddalstungu, líklega þá inni í Mjóadal sem gengur inn til norðvesturs fyrir neðan bæinn. Nokkru neðar og handan við Mjóadalsá stóð bærinn Galtarhöfði á gljúfurbarmi. Síðustu ábúendurnir þar fluttu yfir að Sanddalstungu 1906. Ögn neðar voru Gestsstaðir hinum megin (austan við) Sanddalsá. Þar er landþröngt og snjóþungt og jörðin fór í eyði 1945. Frá Gestsstöðum er gömul póstleið upp í Fornahvamm.
Ferðasagan:
Að morgni laugardagsins 8. júní 2019 söfnuðust við saman við Fellsendarétt; ellefu tvífættir hlauparar og einn hundur. Veðrið lék svo mikið við okkur að varla sást ský á himni allan tímann. Hitinn fór yfir 15°C á láglendi yfir hádaginn en norðan strekkingur sá til þess að ekki varð of heitt.















Lokaorð:
Leiðin um Reykjadal og Sanddal er fáfarin, sem gerir hana í raun eftirsóknarverðari en ella. Þarna er auðvelt að vera einn með sjálfum sér eða njóta samvista án utanaðkomandi truflunar. Leiðin er nokkuð löng en greiðfarin og frekar auðrötuð. Dagsstundir eins og við áttum þennan laugardag flokkast sem forréttindi.
Helstu heimildir:
- Guðrún Ása Grímsdóttir, Árni Björnsson og Haukur Jóhannesson (1997). Í fjallhögum milli Mýra og Dala. Ferðafélag Íslands, Árbók 1997. Reykjavík.
- Vigfús Reykdal (1855): Miðdalaþing. Tíminn Sunnudagsblað, 35. tbl., 30. desember 1973, (bls. 748-750). http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3562569.
Bakvísun: Fjallvegahlaup nr. 53 framundan | Fjallvegahlaup Stefáns
Bakvísun: Hlaupaannáll 2019 og markmiðin 2020 | Bloggsíða Stefáns Gíslasonar