Fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2025 er nokkurn veginn tilbúin. Á henni eru hvorki meira né minna en tólf leiðir – og hafa aldrei verið fleiri. Nú eru líka bara tvö sumur eftir af fjallvegahlaupaverkefninu og á þessum tveimur sumrum þarf ég að hlaupa 19 fjallvegi til að ná markmiðinu um100 fjallvegi fyrir sjötugt. Ef ég næ tólf hlaupum í sumar verða ekki nema sjö eftir fyrir sumarið 2026. Hlýtur það ekki að nást?

Dagskrá sumarsins birtist í heild sinni á undirsíðunni Næstu hlaup og verður uppfærð og lagfærð jafnóðum ef einhverjar breytingar verða. Og breytingar verða oft. Ég mun gera mitt besta til að upplýsa um slíkt, þótt seint verði, á Fésbókarsíðu fjallvegahlaupaverkefnisins.

Myndin sem fylgir þessari færslu er ein af uppáhalds fjallvegahlaupamyndunum mínum. Hana tók Björk af mér á Ólafsfirði að morgni 24. júní 2008 þegar ég var í þann veginn að leggja upp í fjallvegahlaup nr. 3 og 4 yfir Rauðskörð og Hólsskarð. Þetta ferðalag var eitt af þeim eftirminnilegustu það sem af er, en ekki endilega það gáfulegasta. Þetta tvennt fer oft saman.