Sumarið 2024 er liðið. Klúkuheiði á Vestfjörðum (fjallvegur nr. 81) er eini fjallvegurinn sem bættist í safnið á árinu og því er ljóst að næstu tvö sumur (2025 og 2026) þarf ég að afgreiða samtals 19 fjallvegi til að ná hundraðinu í tæka tíð fyrir útgáfu nýrrar fjallvegahlaupabókar í mars 2027.

Drög að fjallvegahlaupadagskrá sumarsins 2025 verða birt þegar nær dregur. Hugmyndir um verkefnin sem þá verður fengist við eru nánast ómótaðar, en væntanlega verða alla vega Marðarnúpsfjall, Ketuvegur og Flateyjardalsheiði á þeim lista, já og vonandi um það bil sjö fjallvegir til viðbótar. Allar tillögur eru vel þegnar.

Myndin sem fylgir er ekki úr fjallvegahlaupi. Kristinn Óskar Sigmundsson tók sem sagt þessa mynd af mér sitjandi á toppi Hafnarfjalls seint í ágúst í sumar.