Fimmtudaginn 15. ágúst nk. ætla ég að hlaupa tvo fjallvegi milli Hrútafjarðar og Miðfjarðar, nánar tiltekið:
- Húksleið – Frá Brandagili í Hrútafirði að Húki í Miðfirði – 9 km
Þarna er jeppavegur og leiðin líklega ein af þeim auðveldari
Reikna með að leggja af stað frá Brandagili kl. 10:00 - Hrútafjarðarháls – Frá Þóroddsstöðum í Hrútafirði að Skarfshóli í Miðfirði – 11 km
Veit ekki alveg hversu auðfundin þessi leið er, en vegalengdin er alla vega viðráðanleg.
Reikna með að leggja af stað frá Þóroddsstöðum kl. 13:30
Eins og stundum áður getur þessi áætlun breyst með litlum fyrirvara, en ég læt þá vita um slíkar breytingar á Facebooksíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins. Sem fyrr er öllum velkomið að slást í för með mér – á eigin ábyrgð. Öryggisins vegna er gott að láta mig vita fyrirfram (sími 862 0538), en það er samt engin skylda.
Ef allt gengur að óskum verður þetta annað og þriðja fjallvegahlaup sumarsins. Enn sem komið er hefur mér sem sagt bara tekist að ljúka einu hlaupi, þ.e.a.s. yfir Klúkuheiði milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Fór þar einn yfir í einkar góðu veðri 16. júlí sl. Myndin sem fylgir þessari færslu var tekin í þeirri ferð.
Sennilega verða fjallvegahlaup sumarsins ekki fleiri en þessi þrjú. Það þýðir að ég þarf að afgreiða samtals 17 fjallvegi tvö síðustu sumur verkefnisins (2025 og 2026). Það ætti ekki að vera mikill vandi ef heilsan er góð.
