Nú stefnir allt í að ég nái að hlaupa yfir Klúkuheiði nk. þriðjudag (16. júlí 2024). Ef allt gengur að óskum legg ég af stað frá Tungu í Valþjófsdal í Önundarfirði kl. 9:30 árdegis og verð komin að Gerðhömrum í Dýrafirði um 12-leytið. Vonast til að verða sóttur þangað, en annars skokka ég bara til baka sömu leið. Leiðin öll er um 11,5 km og hæst er farið í tæplega 600 m hæð.
Þorvaldur Thoroddsen á að hafa sagt að Klúkuheiði væri versti fjallvegur sem hann hefði farið á Íslandi, en heiðin sjálf er mjög stutt. Líklega er kaflinn sem gaf Þorvaldi ástæðu til þessarar umsagnar ekki meira en kílómetra langur. Þessi stutti kafli er snarbrattur og laus í sér og því illfær með hesta.
Klúkuheiðin verður 81. fjallvegurinn í fjallvegahlaupaverkefninu mínu. Fjallvegur nr. 82 verður væntanlega Breiðadalsheiði úr Skutulsfirði til Önundarfjarðar – og eins og staðan er í andránni er líklegt að ég hlaupi hana föstudaginn 19. júlí. Laugardagurinn 20. júlí kemur einnig til greina. Meira um það síðar ef af verður.
Sem fyrr er öllum velkomið að slást í för með mér í þessum fjallvegahlaupum – á eigin ábyrgð. Gott væri samt að frétta af ferðafélögum fyrirfram.
Þessi áætlun getur breyst með mjög stuttum fyrirvara. Fylgist því endilega með á Facebooksíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins.