Á morgun, þriðjudaginn 15. ágúst, ætla ég að hlaupa tvo fjallvegi í Ísafjarðardjúpi. Þetta er í raun gert til að bæta upp að ekki tókst að ljúka áætluðum hlaupum á Austurlandi í síðasta mánuði vegna þoku. Þegar þetta er skrifað eru fjallvegahlaupin orðin samtals 77 og stefnan er að ljúka 100 hlaupum fyrir haustið 2026. Þegar sumarið í sumar er liðið verða bara þrjú sumur eftir til ráðstöfunar og takmörk fyrir því hversu mörgum hlaupum er hægt að ljúka á hverju sumri. Þess vegna var þessi skyndiákvörðun tekin.
Fjallvegir morgundagsins eru Skötufjarðarheiði frá Kálfavík í Skötufirði yfir í Heydal (um 14 km með ca. 600 m hækkun) og Eyrarfjall úr botni Mjóafjarðar yfir í Ísafjörð (gamli bílvegurinn, um 11 km með ca. 400 m hækkun). Tímaáætlun dagsins er í grófum dráttum sem hér segir:
Kl. 10:00 Lagt af stað á Skötufjarðarheiði upp Grafarskarð (eða Grafargil) í landi Kálfavíkur
Kl. 13:00-13:30 Komið að Heydal (að hótelinu)
Kl. 14:00-14:30 Lagt af stað frá Heydal áleiðis inn í Mjóafjarðarbotn (um 7 km „ferjuleið“)
Kl. 15:00-15:30 Lagt af stað á Eyrarfjall
Kl. 16:30-17:30 Komið niður í Ísafjörð
Líta ber á tímasetningarnar hér að framan (aðrar en þá fyrstu) sem lausleg viðmið. Talsverð frávik í báðar áttir eru hugsanleg, allt eftir því hvernig ferðalaginu miðar. Þau sem vilja vera með ættu því að vera í sambandi áður en lagt er af stað, (sími 8620538, Stefán). Að vanda eruð þið öll velkomin á eigin ábyrgð, þó að eðlilega muni hinn stutti fyrirvari draga úr þátttöku ef eitthvað er. Beðist er velvirðingar á því.
Rétt er að nefna að leiðirnar upp á Skötufjarðarheiði og niður af henni aftur eru býsna brattar. Þarna hefur samt verið farið yfir með kýr, þannig að væntanlega er þetta ekki ofvaxið frískum hlaupurum og göngufólki.