Staðsetning: Frá Tungu í Valþjófsdal í Önundarfirði að Gerðhömrum í Dýrafirði
Áfangar og hnattstaða:
Tunga: 0,00 km, N66°00,72' - V23°33,52' ( 50 m)
Gata í Tunguhorni: 0,25 km, N66°00,65' - V23°33,76' ( 93 m)
Neðst í Dalsdal: 0,90 km, N66°00,53' - V23°34,48' (169 m)
Innst í Dalsdal: 3,60 km, N65°59,61' - V23°36,90' (447 m)
Klúka: 4,40 km, N65°59,64' - V23°37,67' (578 m)
Sandsheiði: 5,40 km, N65°59,76' - V23°38,82' (502 m)
Gerðhamrar: 13,27 km, N65°56,68' - V23°39,82' ( 11 m)
Hæð y. sjó: 50 m við upphaf, 578 m hæst, 11 m við lok
Samanlögð hækkun: 544 m
Vegalengd: 13,27 km
Tími: 1:46:33 klst.
Meðalhraði: 7,47 km/klst (8:02 mín/km)
Dags.: Þriðjudaginn 16. júlí 2024, kl. 9:36
Hlaupafélagar: Engir
Fróðleikur um leiðina:
Klúkuheiði, eða bara Klúka, var ein þriggja leiða sem áður voru farnar á milli Önundarfjarðar og Dýrafjarðar. Hinar tvær voru Gemlufallsheiði, þar sem bílvegurinn liggur nú, og Sandsheiði, sem tengir Dýrafjörð við Ingjaldssand, ystu byggð sunnan Önundarfjarðar. Reyndar má segja að Klúkuheiði sé eins konar afleggjari af Sandsheiði (eða öfugt), þar sem leiðin suðuryfir Klúkuheiði kemur niður á veginn efst á Sandsheiði og fylgir honum síðan til byggða í Dýrafirði.
Fjallvegahlaupið yfir Klúkuheiði hefst við bæinn Tungu í Valþjófsdal. Ekki hefur verið búið í Tungu frá því á árinu 1991, en eigendur jarðarinnar dvelja þar gjarnan yfir sumartímann. Kirkjuból neðar í dalnum er hins vegar í ábúð. Þar hefur verið sóknarkirkja allar götu frá 1470 og í fornsögum má finna vísbendingar um búsetu a.m.k. frá miðri 13. öld.
Fyrir innan Tungu greinist Valþjófsdalur í tvennt; Tungudal að austanverðu (til vinstri) og Dalsdal að vestanverðu (til hægri). Leiðin inn á Klúkuheiði liggur um þann síðarnefnda. Frá bænum er þá fyrst haldið stuttan spöl í vestur neðan við Tunguhorn sem skilur dalina tvo að. Þar er strax komið inn á greinilegan vegarslóða sem liggur þvert fyrir endann á Tunguhorni og sveigir svo áleiðis inn Dalsdal. Þennan veg byrjuðu félagar í Ungmennafélagi Önundarfjarðar að leggja á sínum tíma. Neðst í dalnum verður slóðinn ógreinilegri en þar liggur beinast við að fylgja slóð sem líklega hefur orðið til þegar jarðstrengur var lagður inn dalinn sumarið 2022 (sjá síðar). Þessi slóð liggur inn dalinn að austanverðu (vinstra megin), en vörður vísa aðra leið vestanmegin í dalnum. Dalbotninn er tiltölulega sléttur og fremur greiðfær, þannig að þar er nánast hægt að fara hvar sem er.
Leiðin inn Dalsdal er öll heldur á fótinn, þó að hún sé hvergi brött. Í björtu veðri fer aldrei á milli mála hvert halda skal, því að stefnan er tekin beint inn á Klúkuheiði þar sem landið er lægst. Hlíðar dalsins eru brattar beggja vegna, en dalurinn er tiltölulega víður og þar er gott beitiland – og jafnvel slægjur ef einhverjir væru á höttunum eftir slíku.
Frá Tungu eru tæpir 4 km inn í botn Dalsdals og þá fyrst tekur sjálf Klúkuheiðin við. Leiðin upp sést langt að og þar eru auðveldast að fylgja afar grófum jarðýtuslóða sem liggur þarna upp í sneiðingum. Leiðin upp úr dalbotninum er brött (130 m hækkun á 800 m kafla) og á henni eru „svo brattir blettir“ að hestar runnu til baka á uppleið, en „settu fætur fram fyrir sig og létu sig renna“ á niðurleið, svo vísað sé í frásagnir Guðmundar Bernharðssonar frá Ástúni á Ingjaldssandi. Engin samfelld reiðgata var þarna upp og leiðin lá „gegnum stórgrýtta fjallaurð sem endaði í brattri hellugötu“, sem nefndist Klif. Þessi hellugata var eins konar einstigi upp með stuðlabergsdrangi – og væri gatan ekki rudd var varla fært þarna með hesta. Þetta er sögð hafa verið „draugaleið í myrkri“. Þorvaldur Thoroddsen á að hafa sagt að þetta væri versti fjallvegur sem hann hefði farið á Íslandi, en hann fór einmitt þarna yfir sumarið 1887, væntanlega ríðandi. Hann komst líka svo að orði að heiðin væri „örmjó“, sem má til sanns vegar færa því að leiðin upp er sem fyrr segir ekki nema 800 m – og þegar upp er komið er rétt um kílómetri niður á veginn yfir Sandsheiði. Sá spölur er greiðfarinn eftir hörðum, sléttum og vörðuðum vegarslóða. Eftir að þarna er komið sögu liggur leiðin eftir bílveginum tæplega 8 km leið niður að Gerðhömrum í Dýrafirði, þar sem hlaupið endar.
Hversu mjó og brött sem Klúkuheiði kann að vera, var þetta aðalleiðin fyrir ábúendur á Ingjaldssandi til Önundarfjarðar, hvort sem farið var með fjárrekstra eða í öðrum erindagjörðum. Fjárrekstrar yfir Klúkuheiði voru sérstaklega tíðir eftir að farið var að reka sláturfé af Ingjaldssandi til Ísafjarðar í lok 19. aldrar. Vissulega var mun styttra að fara inn með firðinum, en þá þurfti að fara fyrir Hrafnaskálarnúp. Sú leið var illfær fyrir gangandi fólk og ófær á hestum.
Nú eru fjárrekstrar yfir Klúkuheiði væntanlega aflagðir og helst að göngufólk, fjallahjólafólk og fjallvegahlauparar leggi leið sína þarna yfir. Sumarið 2022 voru ljósleiðari og þriggja fasa rafmagnsstrengur lagðir yfir heiðina með tilheyrandi vinnuvélum, þannig að heiðin ber þess glögg merki að þar hafi fólk verið á ferð. Mörgum áratugum fyrr var símastrengur lagður þarna í jörð, en hann er væntanlega aflagður rétt eins og fjárrekstrarnir.
Ferðasagan:
Dagana fyrir og eftir hlaupið yfir Klúkuheiði dvaldi ég ásamt hluta fjölskyldunnar í húsi í Önundarfirði. Þess vegna krafðist hlaupið sem slíkt ekki mikilla ferðalaga að upphafspunkti og frá endapunkti. Þessi tiltekni þriðjudagur hófst með því að Björk skutlaði mér inn í Valþjófsdal. Hlaupið var ákveðið með stuttum fyrirvara, þannig að ég bjóst svo sem ekki við neinni fylgd yfir heiðina. Sú varð líka raunin. Veðrið lék við mig þennan dag og bæði þess vegna og vegna þess hversu stutt og auðrötuð þessi leið er, fannst mér alls ekkert tiltökumál að vera þarna einn á ferð.


















Lokaorð:
Klúkuheiði er engan veginn „versti fjallvegur á Íslandi“ eins og málum er háttað á 3. áratug 21. aldar. Þvert á móti er þetta fremur stutt og greiðfær leið sem hentar ágætlega til fjallvegahlaupa. Hækkunin er drjúg, en leiðin auðrötuð og laus við stórar áskoranir. Í góðu sumarveðri er þetta hrein ánægja.
Helstu heimildir:
- BB (2022): Ingjaldssandur: ljósleiðari og rafmagn lagt í sumar. Frétt á vefsíðu 19. október 2022. https://www.bb.is/2022/10/ingjaldssandur-ljosleidari-og-rafmagn-lagt-i-sumar.
- Einar Erlendsson (1932): Yfirlit yfir helztu mannvirki á Íslandi 1931. Grein í tímariti Verkfræðingafélags Íslands, 17. árg. 5. tbl. 1. október 1932. (Bls. 54-60). https://timarit.is/page/5441567#page/n7/mode/2up.
- Guðmundur Bernharðsson (1982): V-Ísafjarðarsýsla Mýrahreppur og Mosvallahreppur. Svör við spurningaskrá 46, Vegir og vegagerð. https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=540201.
- Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2009): Ísafjarðardjúp / Dýrafjörður. Gönguleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
- Kjartan Ólafsson (á.á.): Kirkjuból í Valþjófsdal. Samantekt á vef Safnahúss Ísafjarðar. https://www.safnis.is/upload/files/72KirkjubolValthjofsdal.pdf.
Þakkir:
- Birgitta Stefánsdóttir fyrir flutninga
- Björk Jóhannsdóttir fyrir flutninga