Breiðuvíkurháls

Staðsetning: Frá Breiðuvík til Hænuvíkur 
Áfangar og hnattstaða:
Upphaf: 0,00 km ( 5 m), N65°32,98' - V24°21,12'
Krossgötur í Hænuvíkurskarði: 7,55 km (298 m), N65°35,35' - V24°14,88'
Lok: 11,11 km ( 28 m), N65°36,65' - V24°12,16'
Hæð y. sjó: 5 m við upphaf, 323 m hæst, 28 m við lok
Samanlögð hækkun: 547 m 
Vegalengd: 11,11 km
Tími: 2:30:44 klst.
Meðalhraði: 4,42 km/klst (13:34 mín/km)
Dags.: Sunnudag 12. júlí 2020, kl. 15:08
Hlaupafélagar:
Birkir Þór Stefánsson

Fróðleikur um leiðina:

Fjallvegahlaupið yfir Breiðuvíkurháls hefst á hlaðinu á Hótel Breiðavík. Fyrstu skrefin eru hlaupin upp heimreiðina, en eftir u.þ.b. 250 m er tekin kröpp vinstri beygja út af veginum við gönguleiðarskilti rétt fyrir ofan kirkjuna. Fyrst um sinn er fylgt greinilegri götu sem liggur þarna utan í holti, en eftir u.þ.b. 2 km þarf að fara að stefna á brattann. Leiðin upp hálsinn er ekki stikuð, en eitthvað um vörður. Best er að fara upp með gili þar sem gróðurinn í hlíðinni er mestur (væntanlega Hafnargil), en ókunnugir eiga ekkert endilega auðvelt með að velja rétta gilið. Leiðin upp er brött og grýtt og enn grýttari ef fólk hittir ekki á réttu leiðina.

Eftir um 3 km er mesta bröltið að baki og hæðin komin í 300 m. Eftir það bætist lítið við. Framundan er hálsinn sjálfur, býsna grýttur hvert sem litið er. Hálsinn er u.þ.b. 1,3 km breiður og þegar komið er á norðurbrúnina blasir við brött og grýtt hlíð niður í Vatnadal. Haldið er sömu stefnu, í norðaustur, þvert yfir dalinn og eftir u.þ.b. 5,6 km fer leiðin aftur að liggja upp á við. Þar er komið að krossgötum við Dalbrekkur, þar sem hægt væri að beygja til vinstri niður í Kollsvík eða til hægri suður í Brúðgumaskarð suður til Keflavíkur. En í þessu fjallvegahlaupi liggur leiðin áfram til norðausturs áleiðis upp í Hænuvíkurskarð. Þetta fjallvegahlaup liggur nefnilega yfir tvo fjallvegi. Breiðuvíkurháls er sá fyrri og fyrirferðameiri en Hænuvíkurskarð sá síðari.

Þegar þarna er komið sögu taka við greinilegri götur en áfram frekar hrjóstrugar. Eftir u.þ.b. 7,5 km er komið að krossgötum í Hænuvíkurskarði, þar sem leiðir liggja til vinstri niður í Kollsvík og til hægri yfir Tunguheiði að Tungu í Örlygshöfn. En til að komast í Hænuvík þarf að halda áfram í norðausturátt. Niðurleiðin er auðrötuð, enda víðast greinileg gata. Hlaupið er vestan (vinstra megin) við Fremrivíkurvatn og áfram niður með Vatnsgili, alla leið niður á þjóðveginn í Hænuvík við Ytriá. Þar endar hlaupið.

Ferðasagan:  

Við Birkir hlupum yfir Breiðuvíkurháls (og Hænuvíkurskarð) síðdegis á sunnudegi. Fyrr sama dag höfðum við farið þrjú saman yfir Tunguheiði, en þessar tvær leiðir mætast á krossgötum í Hænuvíkurskarði. Upphaflega höfðum við ætlað að leggja upp frá Hænuvík – og sennilega hefði okkur gengið betur að rata þá leiðina. En vegna vindáttar ákváðum við að byrja að sunnanverðu. Þannig fengum við vindinn í bakið.

Við upphaf ferðar fengum við góða tilsögn frá Keran í Breiðuvík, þ.á m. um það meðfram hvaða gili væri best að leggja á hálsinn. Okkur tókst ekki alveg að fylgja þeirri leiðsögn, fórum líklega giljavillt og lentum því óþarflega vestarlega í óþarflega miklu eggjagrjóti. En engin leið kvað vera slétt og auðveld.

Myndir sem teknar voru í ferðinni segja annars ferðasöguna að mestu leyti. Þessar myndir má finna í þar til gerðu myndaalbúmi á Facebook.

Lokaorð:

Breiðuvíkurháls kemst ekki hátt á vinsældalista fjallvegahlaupaverkefnisins. Til þess er leiðin yfir hálsinn of grýtt og seinfarin. Rétt er þó að hafa þann fyrirvara að staða fjallvega á þessum vinsældalista ræðst óhjákvæmilega að hluta til af veðrinu, útsýninu og ratvísinni þann daginn. Flestar leiðir eru skemmtilegar í góðu veðri og þegar bestu og réttustu leiðinni er fylgt frá upphafi til enda.

Helstu heimildir:

  • Gísli Már Gíslason og Ólafur B. Thoroddsen, 2020: Rauðasandshreppur hinn forni. Árbók Ferðafélags Íslands 2020. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
  • Helgi M. Arngrímsson, 2007: Vestfirðir og Dalir 4 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.

Þakkir:

  • Birgitta Steánsdóttir fyrir flutninga og almennan stuðning
  • Keran Stueland Ólafsson í Breiðuvík fyrir leiðsögn og góð ráð