Staðsetning: Frá Kleifum á Selströnd að Kaldrananesi
Hnattstaða:
Upphaf: 0,00 km, N65°41,98' - V21°35,33' ( 18 m)
Kleifabunga: 2,04 km, N65°42,90' - V21°34,78' (131 m)
Kvíafell: 2,41 km, N65°43,01' - V21°34,42' (147 m)
Skötuormaflói: 4,38 km, N65°43,51' - V21°32,48' (165 m)
Urriðavötn: 5,18 km, N65°43,81' - V21°31,82' (172 m)
Vegarslóði: 8,34 km, N65°44,88' - V21°29,40' (153 m)
Nesströnd: 11,30 km, N65°45,43' - V21°26,27' ( 20 m)
Lok: 12,94 km, N65°45,71' - V21°24,37' ( 10 m)
Hæð y. sjó: 18 m við upphaf, 180 m hæst, 10 m við lok (?)
Samanlögð hækkun: 397 m
Vegalengd: 12,94 km
Tími: 2:05:21 klst.
Meðalhraði: 6,19 km/klst (09:41 mín/km)
Dags.: Mánudagur 1. september 2025 kl. 9:58
Hlaupafélagar: Birkir Þór Stefánsson (og Grunnskólinn á Drangsnesi að hluta)
Fróðleikur um leiðina:
Bjarnarfjarðarháls milli Steingrímsfjarðar og Bjarnarfjarðar (syðri) á Ströndum er „breiður háls og fremur mishæðalítill með aragrúa af vötnum og tjörnum, mýraflóum og sundum, lágum melholtum og hryggjum“, svo vitnað sé í texta Jóhanns Hjaltasonar í Árbók FÍ 1952. Landslagið á hálsinum gerir það að verkum að þar er víða hægt að velja sér leiðir milli byggða, enda hvorki mikið um stjórfljót né þverhnípi. Ein þeirra leiða sem talað er um sem „gamla þjóðleið“ er reiðgata frá Hellu á Selströnd að Kaldrananesi yst í Bjarnarfirði. Tilbrigði við þessa leið varð fyrir valinu fyrir fjallvegahlaup yfir hálsinn, en þetta „tilbrigði“ er einmitt sýnt á skipulagsuppdrætti Kaldraneshrepps frá 2011. Þess má reyndar geta að sumarið 2016 hljóp ég með fleira fólki frá Hvammi í Bjarnarfirði að Sandnesi á Selströnd. Það ferðalag hefði ég sem best getað skráð sem fjallvegahlaup, en af einhverjum ástæðum gerði ég það ekki. Því var upplagt að fara aðra leið til að sjá meira af hálsinum.
Fjallvegahlaupið yfir Bjarnarfjarðarháls hefst við gamla bæinn á Kleifum á Selströnd, næsta bæ fyrir utan Hellu. Í þessum gamla bæ fæddist tengdapabbi 4. janúar 1929 – og mér finnst við hæfi að hafa rásmarkið þar til að heiðra minningu hans. Tengdapabbi fylgdist með fjallvegahlaupunum mínum af áhuga frá fyrstu tíð og fylgdi mér stundum með fleira fólki á ráslínuna í upphafi hlaups. Mér fannst líka við hæfi að enda hlaupið við kirkjuna á Kaldrananesi, þó að það hefði sem best mátt enda innar í Bjarnarfirði þar sem reiðgatan kemur niður á aðalveginn. Kaldrananeskirkja var með merkari stöðum í huga tengdapabba. Þangað fórum við hjónin stundum með hann í pílagrímsferðir síðustu árin og í kirkjugarðinum liggja afi hans og amma og fleiri skyldmenni.
Gamli bærinn á Kleifum var að grunni til byggður 1903 og virðist enn nokkuð heillegur, þó að líklega hafi viðhaldi lítið verið sinnt síðustu áratugi. Frá bænum er hlaupin stysta leið upp á þjóðveginn (Drangsnesveg (645)), en sá spotti er á að giska 450 m langur. Þar er beygt til vinstri og veginum fylgt svo sem 50 m. Þar er svo beygt til fjalls (til hægri) og fylgt einni af mörgum slóðum áleiðis upp hálsinn. Leiðin liggur fyrst nokkurn veginn í hánorður upp Kvíahrygg, en fljótlega er sveigt örlítið til hægri með Kleifabungu á hægri hönd. Eftir u.þ.b. 2,3 km er komið á Kvíafell (149 m) – og svo haldið áfram til norðausturs í vesturjaðri Vörðusteinsmela og yfir Selflóabolla með Selflóa á vinstri hönd.
Eftir u.þ.b. 5 km hlaup er komið að suðurenda Urriðavatna, en veiðin í vötnunum er líklega helsta ástæða þess að enn liggja greinilegir slóðar þarna upp á hálsinn báðum megin frá. Hlaupið er eftir suðausturströnd vatnanna (með vötnin á vinstri hönd), en ströndin er „mest megnis lág klettabelti, og kallast þar Björgin“ (JH, bls. 23). Í stærsta vatninu eru tveir hólmar og er annar kallaður Kleifahólmi. Samkvæmt Jarðabók Árna Magnússonar var þar til forna „lítilsháttar eggver, en dúntekja engin“. Leiðin meðfram vötnunum er ekki vel greinileg á korti, en eftir u.þ.b. 8 km hlaup eru vötnin að mestu að baki. Við norðurenda vatnanna er Urriðaborg og þar austuraf (til hægri) eru Himbrimavötn. Þarna norður af vötnunum er komið inn á greinilegan vegarslóða sem liggur fyrst niður með Urriðaá, en sveigir svo lengra til hægri (til norðausturs og austurs), meðfram Miðaftanshöggi og alla leið niður á Drangsnesveg á Nesströnd um 1,5 km innan við Kaldrananes. Hlaupið endar svo við Kaldrananeskirkju eins og fyrr segir.
Kaldrananes er fornt höfuðból og hefur sveitin lengi verið við það kennd. Áður var talað um Nessveit, en nú heitir sveitarfélagið Kaldrananeshreppur. Þetta sveitarfélagið hefur staðið af sér öll sameiningarátök og eftir því sem næst verður komist hafa sveitarfélagamörkin ekki breyst um aldir, alla vega ekki síðan 1875. Kaldrananes hefur lengi verið kirkjustaður. Núverandi kirkja er bárujárnsklætt timburhús, byggt á grunni eldri kirkju árið 1851. Kirkjan mun vera næstelsta húsið á Ströndum á eftir Árneskirkju (1850).
Ysti hluti nessins sem bærinn og kirkjan á Kaldrananesi standa á nefnist Höfði. Þar var á sínum tíma útbúin höfn og gerður bílfær landangur út í Hjörsey í tengslum við hraðfrystihús sem verið var að byggja á Höfðanum. Hafnarreglugerð var gefin út vorið 1947 og vorið 1948 var frystihúsið tilbúið. Fyrirtækið Ísborg hf. stóð að byggingu hússins með opinberum stuðningi, en byggingin varð dýrara en vonir stóðu til. Ísborg varð gjaldþrota ári síðar og eftir nokkrar sviptingar komst húsið í eigu annarra. „Var þar atvinnurekstur um skeið og vísir að þorpsmyndun, en nú niður fallið og í eyði“, eins og segir í Árbók FÍ 1952. Reksturinn virðist því hafa verið býsna endasleppur. Húsið stendur enn, en viðhaldi hefur ekki verið sinnt og mun húsið nú löngu ónýtt og að hruni komið.
Ferðasagan:
Verður skráð að hlaupi loknu
Nesti og annar búnaður:
Verður skráð að hlaupi loknu.
Lokaorð:
Verða skráð að hlaupi loknu.
Helstu heimildir:
- Atvinnu- og samgöngumálaráðuneytið (1947): Hafnarreglugerð fyrir Kaldrananes við Bjarnarfjörð í Strandasýslu, nr. 96 13. maí 1947. https://urlausnir.is/merkimidar/202252.
- Byggðastofnun (2025): Sveitarfélag á Íslandi. Skipan og breytingar – tímabil. Mælaborð. https://www.byggdastofnun.is/is/utgefid-efni/maelabord/sveitarfelagaskipan.
- Helgi M. Arngrímsson (2009): Vestfirðir og Dalir 3 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
- Jóhann Hjaltason (1952): Strandasýsla. Árbók Ferðafélags Íslands 1952. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
- Jóhann Kristmundsson (1949): Frystihúsið í Kaldrananesi. Aðsend grein. Tíminn, 189. tbl., 8. september 1949, bls. 4. https://timarit.is/page/1009031#page/n3/mode/2up.
- Kaldrananeshreppur (2011): Aðalskipulag Kaldrananeshrepps 2010-2030. https://skipulagsaaetlanir.skipulagsstofnun.is/skipulagvefur/DisplayDoc.aspx?itemid=20634626719743814878.
- Minjastofnun (á.á.): Kaldrananeskirkja, Kaldrananesi við Bjarnafjörð. https://www.minjastofnun.is/is/byggingararfur/fridlyst-hus-og-mannvirki/kaldrananeskirkja.
- Morgunblaðið (1949): Úr rústum Hermanns Jónassonar. Frystihúsið á Kaldrananesi og saga þess. Morgunblaðið, 200. tbl., 3. september 1949, bls. 6-7. https://timarit.is/files/56833433.
- Ragnar Edvardsson (á.á.): Fornleifaskráning í Kaldrananeshreppi, Strandasýslu. Lokaskýrsla. Fornleifastofnun Íslands FS185-99133. https://skraning.minjastofnun.is/Verkefni_1241.pdf.
Þakkir:
- Jón Jónsson á Kirkjubóli fyrir gagnlegar upplýsingar