Staðsetning: Frá Kollsvík að Efri-Tungu í Örlygshöfn
Áfangar og hnattstaða:
Upphaf: 0,00 km ( 33 m), N65°36,83' - V24°18,90'
Krossgötur í Hænuvíkurskarði: 4,86 km (298 m), N65°35,35' - V24°14,88'
Lok: 10,32 km ( 8 m), N65°34,62' - V24°09,12'
Hæð y. sjó: 33 m við upphaf, 339 m hæst, 8 m við lok
Samanlögð hækkun: 397 m
Vegalengd: 10,32 km
Tími: 2:03:06 klst.
Meðalhraði: 5,03 km/klst (11:56 mín/km)
Dags.: Sunnudag 12. júlí 2020, kl. 12:00
Hlaupafélagar:
Birgitta Stefánsdóttir
Birkir Þór Stefánsson
Fróðleikur um leiðina:
Frá Kollsvík liggur gömul reiðleið um Tunguheiði að Efri-Tungu í Örlygshöfn. Kollsvík á sér langa og merka sögu. Þar nam land Kollur sem kom til Íslands í samfloti með Örlygi Hrappssyni, fóstbróður sínum. Örlygur náði landi í Örlygshöfn en Kollur braut skip sitt í Kollsvík. Örlygur hafði verið í fóstri hjá Patreki biskupi í Suðureyjum og þess vegna heitir Patreksfjörður Patreksfjörður.
Í Kollsvík hefur verið stundaður landbúnaður um aldir og auk þess var þar ein stærsta verstöð Vestfjarða um langt skeið. Mikinn fróðleik um sögu og staðhætti í víkinni er að finna á vefnum Kollsvik.is, svo og í samantekt Kjartans Ólafssonar um Kollsvík og Kollsvíkurver.
Í Kollsvík eru tvær fornar bújarðir, þ.e. Láginúpur syðst í víkinni og Kollsvík um tveimur km norðar. Kollsvíkurbærinn hét áður Kirkjuból, en þar mun hafa verið hálfkirkja eða annað guðshús fyrr á öldum. Auk þessara tveggja bæja var búið á nokkrum minni býlum í víkinni um lengri eða skemmri tíma, auk þurrabúða sem tengdust róðrum frá Kollsvíkurverum. Árið 1910 voru tíu heimili í víkinni og íbúar samtals 84. Árið 1920 var íbúatalan komin niður í 64 og í 49 árið 1930.
Tunguheiði er ekki sérlega frumlegt nafn á heiði, en nafn heiðarinnar tengist væntanlega nafni bæjarins þar sem fjallvegahlaupið yfir heiðina endar. Fyrsta spölinn frá Kollsvík er hlaupið suðaustur Húsadal, norðanvert (vinstra megin) við dalbotninn. Þarna er að einhverju leyti hægt að fylgja kindagötum, en annars er ekki augljóst í smáatriðum hvar sé best að fara. Eftir um 1,5 km eykst hallinn, en áfram er haldið nokkurn veginn í sömu stefnu. Eftir u.þ.b. 4,8 km er komið að krossgötum í Hænuvíkurskarði. Þar er hægt að beygja til hægri áleiðis suður í Breiðuvík eða til vinstri niður í Hænuvík. Leiðin yfir Tunguheiði liggur hins vegar því sem næst beint áfram, eftir greinilegum götum með stefnu á Hálffara. Örnefnið Hálffari er óvenjulegt við fyrstu sýn, en Þórhallur Vilmundarson leiddi að því rök á sínum tíma að það táknaði að leiðin yfir heiðina væri hálfnuð. Mörg sambærileg dæmi væri að finna, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Örnefnið Hálfdán væri eitt slíkt dæmi.
Frá Hálffara er haldið áfram í svipaða stefnu að vörðunni Digra-Eyjólfi sem stendur í heiðarbrúninni upp af Örlygshöfn. Þaðan eru rúmir 3 km til byggða. Leiðin þangað liggur eftir greiðförnum stígum, beint niður að bænum Efri-Tungu þar sem hlaupið endar.
Ferðasagan:
Við hlupum þrjú saman yfir Tunguheiði á sunnudegi í vestan strekkingi og þoku. Upphaflega ætluðum við reyndar að byrja í Örlygshöfn og enda í Kollsvík, en snerum leiðinni við til að forðast mótvindinn. Sá vindur breyttist reyndar ekki í meðvind með þessari breytingu, heldur bara í hliðarvind. Breytingin var því óþörf, þannig séð, en við stórgræddum á þessu. Okkar var nefnilega boðið í kaffi og fleira góðgæti í Efri-Tungu fyrir hlaup á meðan við biðum eftir fleiri hlaupurum, sem komu reyndar ekki. Þetta var einkar notalegt stund og að henni lokinni skutlaði Björk okkur í Hænuvík þar sem verkefni dagsins hófst.
Eins og fram kemur í leiðarlýsingunni finnst mér Tunguheiði ekki sérlega frumlegt nafn á heiði. En þetta er samt að öllum líkindum þokkaleg hlaupaleið í góðu veðri, þ.e.a.s. ef maður hittir rétt á leiðina. Við gerðum það ekki til að byrja með og þess vegna urðu fyrstu kílómetrarnir erfiðir. Veðrið var heldur ekki gott, þó að það væri svo sem ekki vont heldur.
Myndir sem við tókum á leiðinni segja annars ferðasöguna að mestu leyti.



















Lokaorð:
Tunguheiðin sem hér um ræðir er áhugaverð og viðráðanleg fjallvegahlaupaleið á slóðum sem fæstir eiga reglulega leið um. Leiðin er auðrötuð í góðu skyggni, en í þoku er ekki endilega fullljóst hvar eigi að fara upp úr Kollsvík. En þá er bara að stefna hiklaust í austsuðaustur. Þarna eru engin björg eða stórfljót sem hægt er að fara sér að voða í – og næsta víst að fyrr en varir rambar maður inn á gamla slóð sem var nógu mikið troðin fyrr á árum til að bera enn greinileg merki um tímann sem þá var.
Helstu heimildir:
- Gísli Már Gíslason og Ólafur B. Thoroddsen, 2020: Rauðasandshreppur hinn forni. Árbók Ferðafélags Íslands 2020. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
- Helgi M. Arngrímsson, 2007: Vestfirðir og Dalir 4 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
- Kjartan Ólafsson, 2019: Kollsvík og Kollsvíkurver. Sögur og sagnir. https://sogurogsagnir.is/sagnabrunnur/kollsvik-og-kollsvikurver.
- Kollsvík, á.á.: Kollsvík. Staðhættir, náttúra og mannlíf. https://kollsvik.is.
- Þórhallur Vilmundarson, 1994: Mælifell. Síðari hluti. Lesbók Morgunblaðsins 11. júní 1994, bls. 8-9. https://timarit.is/page/3310667#page/n8/mode/2up.
Þakkir:
- Björk Jóhannsdóttir fyrir flutninga og almennan stuðning
- Marinó Thorlacius og Sigríður Soffía Níelsdóttir í Efri-Tungu fyrir einstaklega notalegar móttökur