Sandvíkurskarð

Staðsetning: Frá Viðfjarðarbænum að neyðarskýlinu í Sandvík
Hnattstaða:
Upphaf: 0,00 km ( 4 m), N65°05,14' - V13°38,80'
Stuðlar: 4,08 km ( 40 m), N65°06,41' - V13°35,75'
Sandvíkurskarð: 6,48 km (530 m), N65°05,92' - V13°34,43'
Lok: 9,45 km ( 43 m), N65°05,35' - V13°33,27'
Hæð y. sjó: 4 m við upphaf, 531 m hæst, 43 m við lok
Samanlögð hækkun: 550 m
Vegalengd: 9,45 km
Tími: 2:39:40 klst
Meðalhraði: 3,55 km/klst (16:54 mín/km)
Dags.: Miðvikudag 7. júlí 2021, kl. 12:44
Hlaupafélagar:
Arnór Freyr Ingunnarson
Birkir Þór Stefánsson
Salome Hallfreðsdóttir
Sóley Birna Hjördísardóttir

Fróðleikur um leiðina:

Fjallveghlaupið yfir Sandvíkurskarð, eins og það er kynnt hér, hefst við Viðfjarðarbæinn. Eftir örstutt skokk niður grundirnar utan við bæinn liggur leiðin yfir Viðfjarðará á traustri en mjúkri hengibrú. Yfir hana er e.t.v. hægt að hlaupa, en bara ef manni tekst að láta brúna sveiflast í takti við skrefin. Skammt hinum megin við brúna er lítið virkjunarhús, þar sem framleitt er rafmagn til heimilisnota þann tíma sem fólk dvelst í Viðfirði. Þaðan liggur svo leiðin eftir greiðfærum en grófum vegarslóða út undir eyðibýlið Stuðla innarlega á Barðsnesi, u.þ.b. 4 km frá Viðfjarðarbænum. Í heimatúninu er upplýsingaskilti sem vísar veginn upp í Sandvíkurskarð og þaðan er hlaupið sem leið liggur til fjalls, upp gamla hestagötu með stefnu í suðaustur. Þessi gata var á sínum tíma aðalleiðin á milli bæjanna í Viðfirði og Sandvík, jafnt um sumar sem vetur, og nú er stikuð gönguleið þarna yfir.

Leiðin frá Stuðlum upp í Sandvíkurskarð er u.þ.b. 2,4 km, aflíðandi lengst af en býsna brött og grýtt síðasta spölinn. Á víð og dreif liggja heilu björgin sem hrunið hafa úr fjallgarðinum í gegnum aldirnar – og tilsýndar er uppgangan ekki árennileg. En þegar að er komið leynist þarna greinileg gata á milli bjarganna.

Sjálft skarðið er í rúmlega 500 m hæð yfir sjó, innrammað af klettaveggjum, og þar uppi er mjög víðsýnt þegar skyggni er á annað borð gott. Úr skarðinu er fyrst tekinn svolítill krókur til suðurs til að krækja fyrir mesta brattann. Þar er fyrst komið niður á gróinn hjalla, en síðan liggur leiðin í svolitlum sneiðingum niður brekkurnar, alla leið að neyðarskýlinu í Sandvík þar sem hlaupið endar. Niðurleiðin er álíka löng og uppleiðin, nokkuð brött en greiðfær.

Sandvík var lengi austasta mannabyggð á Íslandi og þar var búið á fimm bæjum fram á 20. öld. Sá síðasti fór í eyði 1946. Lítil verstöð var á Skálum við sunnanverða víkina um tíma á 3. áratug 20. aldar. Nokkrum sögum fer að draugagangi í Sandvík. Þar gekk Sandvíkur–Glæsir um á kjólfötum með pípuhatt, reykti pípu og tók ofan höfuðið í kurteisisskyni. Sandvíkurskarð var áður aðalleið Sandvíkinga á landi, en þetta þótti erfið hestaleið. Nú eiga fáir leið um víkina, nema göngufólk á sumrin og hreindýraveiðimenn undir haust.

Ferðasagan:  

Fjallvegahlaupið yfir Sandvíkurskarð var annað hlaupið af þremur þennan sama dag, þegar sólin og þokan toguðust á. Við vorum fimm saman allan daginn og nutum hans vel þrátt fyrir pínulitla þreytu þegar leið á. Ferðasagan endurspeglast annars að mestu leyti í myndum og myndatextum í þar til gerðu myndasafni á Facebooksíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins.

Lokaorð:

Sandvík er ein af þessum útvíkum á Íslandi þar sem nútíminn hélt aldrei innreið sína. Víkin er til þess að gera víðlend og grösug, en hún er vandlega afgirt með háum fjallgarði. Þess vegna hefur víkin aldrei verið í vegasambandi við umheiminn og því hafa stórvirkar vinnuvélar aldrei drepið þar niður skóflu eða tönn. Einangrunin gerir það að verkum að maður finnur hvernig hægist á heiminum þegar komið er niður í víkina. Þar er gott að vera fjallvegahlaupari í góðu veðri um sumar.

Helstu heimildir:

  • Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum (2002): Gönguleiðir á Fjarðaslóðum – austast á Austfjörðum. Gönguleiðir á Austurlandi II. Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum.
  • Hjörleifur Guttormsson (2005): Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Árbók Ferðafélags Íslands 2005. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.

Þakkir:  

Kristín Ágústsdóttir á Neskaupstað fyrir upplýsingar um snjóalög o.fl.