Staðsetning: Frá Kjarlaksvöllum í Saurbæ að Laugum í Sælingsdal Áfangar og hnattstaða: Upphaf: 0,00 km ( 46 m), N65°20,71' - V21°55,14' Vað á Hvammsdalsá: 3,81 km (154 m), N65°19,63' - V21°51,49' Háheiðin: 8,50 km (441 m), N65°17,61' - V21°52,35' Sælingsdalsá (efri): 9,36 km (280 m), N65°17,32' - V21°52,38' Sælingsdalur (bær): 11,06 km (211 m), N65°16,68' - V21°51,05' Lok: 15,86 km ( 70 m), N65°14,76' - V21°48,10' Hæð y. sjó: 46 m við upphaf, 441 m hæst, 70 m við lok Samanlögð hækkun: 481 m Vegalengd: 15,86 km Tími: 2:26:39 klst Meðalhraði: 6,49 km/klst (9:15 mín/km) Dags.: 11.06.2017, kl. 13:07 Hlaupafélagar: Anna Margrét Tómasdóttir Birkir Þór Stefánsson Bryndís Soffía Jónsdóttir Dögg Hjaltalín Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir Guðrún Þorvarðardóttir Gunnar Viðar Gunnarsson Helga Elínborg Guðmundsdóttir Sigríður Drífa Þórólfsdóttir Vanessa Wilson
Fróðleikur um leiðina:
Hlaupið yfir Sælingsdalsheiði hefst á vegamótum neðst í Hvammsdal í Saurbæ, skammt fyrir neðan bæinn Kjarlaksvelli og rétt ofan við bæjarhúsin á Þverfelli.
Á Kjarlaksvöllum bjó á sínum tíma Sigurður Ólafsson, uppeldisbróðir pabba, eða Siggi á Völlum eins og hann var alltaf kallaður. Siggi var fæddur árið 1913 og einhvern veginn höguðu örlögin því svo að afi og amma á Brunngili tóku hann að sér kornungan. Sjálf voru þau þá rétt tæplega fimmtug, áttu 6 börn fyrir og pabbi þeirra yngstur. Pabbi og Siggi voru ólíkir menn, en með þeim var einkar kært alla tíð. Ég kom einu sinni að Völlum á meðan Siggi bjó þar, nánar tiltekið í ágúst 1977 eftir sýslukeppni í frjálsum íþróttum milli Strandamanna og Dalamanna í Tjarnarlundi. Tvö barnabörn Sigga búa nú tvíbýli á bænum.
Hlaupaleiðin frá Kjarlaksvöllum liggur inn Hvammsdal upp með Hvammsdalsá að austan, framhjá eyðibýlunum Hvammsdalskoti og Hvammsdal. Þangað liggur vel bílfær akvegur. Í Hvammsdalskoti bjó Jóhannes Sturlaugsson (Jói í Koti) um miðbik 20. aldar. Hann var á sínum tíma uppáhaldsyrkisefni frænda minna á Kleifum í Gilsfirði. Ekki man ég hvers vegna, en Jóhannes var skáldmæltur og sjálfsagt hafa menn gert það sér til skemmtunar að senda hverjir öðrum kviðlinga, suma e.t.v. ögn meinlega.

Þegar bæirnir eru að baki er vaðið vestur yfir ána, en hún er fremur vatnslítil og botninn sléttur. Að vaðinu eru um 3,8 km frá upphafsstaðnum. Þegar komið er yfir ána verður leiðin hrjóstrugri. Þarna er þó vel fært á jeppa, enda nýta Saurbæingar slík farartæki í haustleitum. Áfram er svo haldið upp Sprengibrekku upp á sjálfa heiðina sem er mjög stutt og fer hæst í um 400 m hæð. Lengst af er fylgt jeppaslóðum og/eða línuvegi, en háspennulína liggur þarna yfir.
Þegar komið er upp á háheiðina eru um 8,5 km að baki. Þaðan liggur leiðin niður brattar brekkur, svonefndar Heiðarbrekkur, niður að Sælingsdalsá. Þarna er enginn greinilegur slóði en stefnan er tekin nokkurn veginn beint niður hallann. Áin er yfirleitt ekki vatnsmikil en botninn grýttur. Að ánni eru um 9,3 km frá upphafsstaðnum í Hvammsdal. Bratt er upp úr ánni að sunnanverðu og síðan tekur við grófur vegarslóði sem liggur í sveig yfir malarholt og áfram sem leið liggur í útjaðri hallandi mýrar. Ef fólk hittir ekki á slóðann er vel hægt að fara beint af augum yfir mýrina. Sú leið er þó þýfð og seinfarin.

Af malarholtinu sést niður að Sælingsdalsbænum. Áin er vaðin á nýjan leik rétt ofan við bæinn og þegar komið er upp brattan árbakkann er maður staddur á bæjarhlaðinu. Þaðan eru um 4,8 km eftir veginum niður að Laugum í Sælingsdal þar sem hlaupið endar við sundlaugina. Vilji maður ekki valda heimamönnum ónæði er vel hægt að hlaupa lengra niður með ánni að vestanverðu og vaða síðan austuryfir þegar hentar. Þar þarf þó að klöngrast yfir girðingar til að komast upp á veginn. Sé þessi leið valin liggur leiðin að öllum líkindum nærri þeim stað þar sem Guðrún Ósvífursdóttir þvoði léreft sín á meðan Helgi Harðbeinsson banaði Bolla Þorleikssyni, þriðja eiginmanni Guðrúnar, þar skammt frá.
Neðar í Sælingsdal rís Tungustapi um 60 m upp úr umhverfi sínu. Við hann er tengd ein þekkasta álfasagan úr íslenskum þjóðsögum en af henni má draga þann lærdóm að ekki borgi sig að láta dyr á kirkjum mennskra manna vera í beinni sjónlínu við dyr á álfakirkjum. Ein slík á að hafa verið í stapanum – og er sjálfsagt enn.
Sælingsdalsheiði var fjölfarin á fyrri árum og kemur við sögu bæði í Laxdælu og Sturlungu. Þessi leið var enda hentugri og styttri en Svínadalur þegar menn áttu erindi milli Saurbæjar og Hvammssveitar. Í vetrarbyrjun 1171 var einn af frægari bardögum Sturlungaaldar háður í Heiðarbrekkum sunnanvert í heiðinni. Þar áttust við Sturla Þórðarson, bóndi í Hvammi, og Einar Þorgilsson, bóndi á Staðarhóli. Sturla hafði betur og varð þessi atburður til að auka áhrif hans i Dölum.
Ferðasagan:
Þennan sunnudagsmorgun ókum við Gunnar Viðar sem leið lá vestur að Laugum. Hugmyndin var að hlaupa þaðan norður yfir heiðina, þangað sem hlaupið átti að hefjast. Þannig var hægt að einfalda fólksflutningana sem ævinlega fylgja því að hlaupa frá einum stað til annars. Skokkuðum af stað frá Laugum rétt fyrir kl. 11 og vorum tæpa tvo tíma norðuryfir.
Skömmu eftir að við Gunnar vorum mættir á upphafsstað hlaupsins tók fólki að fjölga. Og upp úr kl. 13 var okkur ekkert að vanbúnaði að leggja af stað suður yfir heiðina, 11 saman.





Vindurinn hafði staðið af norðri allan daginn en var nú heldur tekinn að færast í aukana, nóg til þess að við vorum feginn að hafa hann með okkur í liði. Við þetta bættist súldarvottur sem þéttist og varð að þoku þegar ofar dró. Hitinn á láglendi var 7-8°C, en þarna uppi var norðanáttin nógu köld til að hroll setti að manni. Þá er um að gera að halda sér á hreyfingu og njóta þess að spjalla við samferðafólkið.




Þokan á heiðinni var ekki ýkja dimm, en samt nógu dimm til að ekki viðraði til myndatöku og líka nógu dimm til að mér fannst ástæða til að gæta sérstaklega að því að enginn drægist langt afturúr. Fólk má ekki týnast í svona ferðum. Hinkraði í skjóli við stein uppi á háheiðinni þangað til allir voru búnir að skila sér.
Niðurleiðin var fljótlegri en uppleiðin, ljóst hvert halda skyldi og því í góðu lagi að hópurinn dreifðist í samræmi við hlaupaþörf hvers og eins. Ég lagði svolitla lykkju á leið mína, fór spölkorn niður með Sælingsdalsá að vestan og óð síðan ána nálægt þeim stað þar sem Guðrún Ósvífursdóttir þvoði léreft sín. Síðan tóku nútíminn og bílvegurinn við.


Sá sem fær að eiga dagsstund á svona stað með svona fólki þarf ekkert að kvarta!
Lokaorð:
Sælingsdalsheiði er einkar hentug fjallvegahlaupaleið. Leiðin er frekar stutt, hægt að fylgja jeppaslóðum lengst af og útsýni fagurt yfir Sælingsdal þegar horft er til suðurs af heiðinni í góðu veðri. Og svo er sagan allt um kring.
Helstu heimildir:
- Árni Björnsson (2011): Í Dali vestur. Árbók FÍ 2011. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
- Helgi M. Arngrímsson (2007): Vestfirðir og Dalir 7 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.