Staðsetning: Frá Brekkurétt í Saurbæ að Brunngili í Bitrufirði Áfangar og hnattstaða: Upphaf: 0,00 km, N65°21,47' - V21°46,43' Innst í Brekkudal: 4,41 km, N65°22,03' - V21°41,42' (203 m) Mosar: 4,82 km, N65°21,94' - V21°41,05' (314 m) Efst á brún: 6,38 km, N65°21,45' - V21°39,65' (601 m) Sýslumörk: 7,00 km, N65°21,40' - V21°37,68' Brún Hólkonudals: 9,00 km, N65°22,20' - V21°36,07' (501 m) Brunngilsdalur: 11,81 km, N65°22,53' - V21°35,90' (183 m) Heiðagil: 15,19 km, N65°23,02' - V21°32,48' (43 m) Lok (Brunngil): 18,50 km, N65°24,43' - V21°30,86' Hæð y. sjó: 10 m við upphaf, 625 m hæst, 30 m við lok Samanlögð hækkun: 689 m Vegalengd: 18,50 km Tími: 3:39:50 klst. Meðalhraði: 5,05 km/klst (11:53 mín/km) Dags.: Laugardag 9. sept. 2023, kl. 11:00 Hlaupafélagar: Birkir Þór Stefánsson
Fróðleikur um leiðina (enn í smíðum):
Úr Brekkudal í Saurbæ yfir í Brunngilsdal í Bitru liggur gamall og fáfarinn fjallvegur sem kallast Mosar. Í athugasemdum við örnefnaskrá Fremri-Brekku í Saurbæ kemur reyndar fram að örnefnið Mosar eigi við drögin upp úr Brekkudalsbotni. Sagt var að „þegar þokan kæmi niður í Mosana, mætti búast við góðu, léttskýjuðu veðri“. Þeir sem áttu leið þarna um á síðustu öld notuðu þetta örnefni yfir fjallveginn sjálfan og var þá talað um að „fara Mosa“. Pabbi minntist stundum á þessa leið og líklega fór hann þarna yfir nokkrum sinnum um eða fyrir miðja 20. öld á leið í smíðavinnu í Saurbæ. Pabbi fæddist einmittt á Brunngili 11. september 1908.
Fjallvegahlaupið um Mosa hefst við Brekkurétt í Saurbæ, u.þ.b. 600 m norðan við afleggjarann heim að bænum Bessatungu. Í Bessatungu bjó Stefán frá Hvítadal árin 1925-1933 og frá honum kemur myllumerkið #þaðerenginþörfaðkvarta, sem gjarnan bregður fyrir í hlaupatengdum Instagramfærslum þess sem þetta ritar. Stefán var fæddur á Hólmavík og þar var minnisvarði um hann afhjúpaður haustið 1987.
Fyrstu fjóra kílómetrana frá Brekkurétt er hlaupið eftir jeppavegi inn og austur Brekkudal meðfram Brekkuá að sunnanverðu. Eftir það er fylgt ógreinilegri slóða u.þ.b. 400 m lengra inn í dalbotninn og svo sveigt lítið eitt til hægri upp brekkurnar þar sem grösugast er, sem sagt upp Mosa. Leiðin upp er brött og þegar komið er upp á brúnina er Hólkonuhnjúkur (723 m) framundan. Stefnan tekin á slakkann sunnanvert (hægra megin) við hann, þ.e.a.s. milli Hólkonuhnjúks og Gaflfells (696 m). Hlaupið er í boga meðfram Hólkonuhnjúki að sunnanverðu og þar er hæsti punktur leiðarinnar við sýslumörk Dalasýslu og Strandasýslu. Þangað eru líklega um 7 km frá upphafspunkti hlaupsins. Engin greinileg slóð er meðfram hnjúknum og leiðin grýtt og seinhlaupin. Hægt er að stytta leiðina nokkuð með því að halda sig utan í hnjúknum sunnanmegin, en þá verður hækkunin eðli málsins samkvæmt nokkru meiri.
Frá sýslumörkunum er stefnan tekin í norðaustur fram á brún Hólkonudals, sem gengur inn úr Brunngilsdal. Frá sýslumörkunum eru um 2 km fram á brúnina, eða rúmir 9 km frá upphafspunkti hlaupsins. Þarna á brúninni er tekin 90° beygja til vinstri niður brattar brekkur niður innanverðan Stórhól sem aðskilur Hólkonudal og Brunngilsdal. Fyrsti spölurinn niður af brúninni er langbrattastur og ekki auðvelt að sjá bestu leiðina ofanfrá.
Þegar niður í dalbotninn er komið er beygt til hægri og Brunngilsá fylgt það sem eftir er, með Þórkötlumúla á vinstri hönd. Leiðin liggur allan tímann sunnan (hægra megin) við ána og víðast er hægt að fylgja greinilegum fjárgötum, ýmist niðri á áreyrunum eða neðst í hlíðinni. Dalurinn er langur en þegar 14-15 km eru að baki frá upphafsstaðnum er vaðið yfir Heiðagil. Greinileg gata liggur upp með innanverðu gilinu, en sú leið liggur suður á Gaflfellsheiði. Niður þessa götu lá leiðin í fjallvegahlaupi á 100 ára afmæli pabba í september 2008.
Á Brunngili bjuggu afi minn og amma í lok 19. aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu – og þar fæddist pabbi (Gísli Gíslason) sem fyrr segir. Í Brunngilsdal sat hann yfir ánum frá 8 ára aldri eða þar um bil, en hleypti heimdraganum 1926. Pabbi bjó fyrstu búskaparárin sín og mömmu í Hvítarhlíð og síðan í Gröf í Bitru frá 1956 til dauðadags í ársbyrjun 2000.
Brunngil hefur verið í eyði síðan 1946 eða 1948, en útveggir íbúðarhússins eru enn uppistandandi að hluta. Húsið var steypt um 1930 og að öllum líkindum stjórnaði pabbi því verki. Hann var reyndar farinn að heiman fyrir þennan tíma og bjó þar af leiðandi aldrei í þessu húsi, heldur ólst hann upp í torfbæ sem stóð þarna áður. Utan um túnið á Brunngili er listilega hlaðinn grjótgarður. Garðurinn er verk Jóns Jónssonar, langafa míns, en hann bjó á Brunngili 1865-1899.
Á Brunngili endar fjallvegahlaupið, en annar möguleiki er að halda áfram niður á þjóðveg nr. 68, sem nú kallast Innstrandavegur á kortum Vegagerðarinnar. Frá Brunngili liggur leiðin þá fyrst eftir grófum vegarslóða sem núverandi eigandi jarðarinnar hefur lagfært nokkuð. Eftir rúma 2 km er komið niður að bænum Þórustöðum, sem er fyrsta byggða bólið á þessari leið. Nokkru neðar er nýbýlið Sandhólar, þar sem ekki er lengur föst búseta, og skammt þar fyrir neðan er komið niður á malbikið á þjóðveginum. Leiðin þangað frá Brunngili er á að giska 4 km.
Ferðasagan:
Verður skráð við tækifæri.
Lokaorð:
Verða skráð fljótlega.
Helstu heimildir:
- Hallgrímur Gíslason (2008): Niðjatal Gísla Jónssonar, konu hans Helgu Bjargar Þorsteinsdóttur og barnsmóður Magnfríðar Pálsdóttur. Óbirt handrit.
- Helgi M. Arngrímsson (2007): Vestfirðir og Dalir 6 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
- Jón Guðnason (1961): Dalamenn. Æviskrár 1703-1961. II. bindi. Jón Guðnason, Reykjavík.
- Landmælingar Íslands (1987): Uppdráttur Íslands. Blað 33. Óspakseyri. Landmælingar Íslands.
- Rögnvaldur Gíslason (2023): Munnleg heimild og minnispunktar.
- Örnefnaskrá (1972): Fremri-Brekka. Athugasemdir. Skráð af Brynjúlfi Sæmundssyni eftir Eysteini Þórðarsyni. https://nafnid.arnastofnun.is/ornefnaskra/16490.
- Örnefnaskrá (1977): Brunngil. Skráð af Gísla Gíslasyni. https://nafnid.is/ornefnaskra/17735.
- Örnefnaskrá (1977): Brunngil. Skráð af Guðrúnu S. Magnúsdóttur eftir Sigríði Gísladóttur. https://nafnid.is/ornefnaskra/17734.
- Örnefnaskrá (2017): Brunngil. Athugasemd. Bjarni Ásgeirsson. https://nafnid.is/ornefnaskra/25449.