Marðarnúpsfjall

Staðsetning: Frá Marðarnúpi í Vatnsdal að Marðarnúpsseli í Svínadal
Hnattstaða:
Upphaf: 0,00 km ( 70 m), N65°21,74' - V20°11,31'
Borgir: 5,00 km (560 m), N65°21,93' - V20°06,78'
Þverflár: 6,20 km (540 m), N65°22,38' - V20°04,97'
Girðing: 8,63 km (555 m), N65°22,87' - V20°02,23'
Marðarnúpssel: 11,65 km (360 m), N65°23,73' - V19°59,60'
Lok: 13,87 km (310 m), N65°24,75' - V19°59,91'
Hæð y. sjó: 70 m við upphaf, 570 m hæst, 310 m við lok
Samanlögð hækkun: 592 m
Vegalengd: 13,87 km
Tími: 3:14:15 klst.
Meðalhraði: 4,28 km/klst (14:00 mín/km)
Dags.: Sunnudag 8. júní 2025, kl. 10:40
Hlaupafélagar:
Jón Ebbi Halldórsson
Sara Kristjánsdóttir
Steinar Trausti Jónsson

Fróðleikur um leiðina:

Hlaupaleiðin yfir Marðarnúpsfjall hefst við Marðarnúp í Vatnsdal, um 35 km sunnan við Blönduós. Hlaupið er eftir gamalli reiðleið sem upphaflega tengdi Marðarnúpsbæinn við sel handan við fjallið, sem eðli málsins samkvæmt var kallað Marðarnúpssel. Reiðleiðin er reyndar víða orðin ógreinileg, þannig að ekki ætti að treysta á hana til rötunar. Leiðin upp frá Marðarnúpi er allbrött og hæst fer leiðin í 570 m.y.s.

Fyrsti spölurinn frá Marðarnúpi liggur upp Kötlustaðarhlíð með Gilá á vinstri hönd. Áfram er svo haldið yfir Borgir með Svartfell (711 m) á vinstri hönd og Rjúpnafell (539 m) til hægri. Af Borgum kvað vera fallegt útsýni niður Vatnsdal og sömuleiðis inn á Auðkúluheiði sem liggur þarna suðuraf. Eftir þetta liggur leiðin áfram í austnorðaustur með suðurenda Svínadalsfjalls á vinstri hönd. Þessi suðurendi nefnist Axlir og fyrr á árum var einmitt talað um að fara „fyrir Axlir“ þegar þessi leið var farin. Undir lokin er svo hlaupið austuryfir Þrívörðuháls og síðan niður í Svínadal meðfram Kaldklofslækjum að Marðarnúpsseli. Endaspretturinn liggur þaðan niður með og yfir Engjalæk, að hliði á Svínadalsvegi, rúmum 2 km innan við bæinn Hrafnabjörg. Þar endar hlaupið.

Sem fyrr segir getur reynst erfitt að fylgja reiðleiðinni yfir fjallið og þegar á heildina er litið er þessi leið býsna seinfarin þar sem landið einkennist af holtum og þúfum.

Marðarnúps er ekki getið í fornum sögum, en þetta þótti þó allmikil jörð, 70 hundruð að dýrleika með hjáleigum. Á Marðarnúpi bjó á sínum tíma Þórður Þorláksson (1543-1638), bróðir Guðbrands Hólabiskups, en Þórður var forfaðir minn í 10. lið. Frá Marðarnúpi var einnig Guðmundur Björnsson landlæknir (1864-1937).

Marðarnúpssel var ekki bara sel alla tíð, heldur var búið þar um tíma, líklega síðast árið 1931.

Ferðasagan:  

Verður skráð

Lokaorð:

Leiðin upp frá Marðarnúpi er brött og seinfarin, þó að hún sé alveg laus við klöngur. Sums staðar er hægt að fylgja gamalli reiðgötu en hún er alls ekki greinileg uppi á fjallinu. Á leiðinni er lítið um tilbreytingu en þess meira um þúfur. Af þessum sökum fer Marðarnúpsfjall ekki ofarlega á vinsældalista fjallvegahlaupaverkefnisins.

Helstu heimildir:

  • Ferðafélag Skagfirðinga o.fl. (2001): Gönguleiðir í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði. Frá Skagafirði til Vatnsdals. Gönguleiðir á Norðurlandi vestra II. Hringur – Atvinnuþróunarfélag Skagafjarðar og Ferða- og markaðsmiðstöð Austur-Húnavatnssýslu.
  • Grímur Gíslason (2007): Selstöður í umhverfi Vatnsdals í Austur-Húnavatnssýslu. Húnavaka, 47. árg. 1. tbl. https://timarit.is/page/6361705#page/n107/mode/2up.
  • Jón Eyþórsson (1964): Austur-Húnavatnssýsla. Árbók Ferðafélags Íslands, Reykjavík.