Kálfsskarð

Staðsetning: Frá Siglufirði út á Siglunes
Áfangar og hnattstaða:
Upphaf: 0,00 km ( 10 m), N66°07,96' - V18°54,95'
Kambalágar: 4,05 km ( 59 m), N66°09,47' - V18°51,71'
Kálfsvatn: 4,89 km (221 m), N66°09,28' - V18°50,94'
Kálfsskarð: 6,48 km (441 m), N66°08,68' - V18°50,05'
Fúluvík: 13,61 km ( 5 m), N66°11,71' - V18°48,32'
Lok: 15,81 km ( 5 m), N66°11,64' - V18°50,58'
Hæð y. sjó: 10 m við upphaf, 441 m hæst, 5 við lok
Samanlögð hækkun: 531 m
Vegalengd: 15,81 km
Tími: 3:03:00 klst.
Meðalhraði: 5,18 km/klst (11:34 mín/km)
Dags.: Þriðjudagur 16. júní 2020, kl. 9:58
Hlaupafélagar:
Guðrún Svanbjörnsdóttir
Gunnar Kr. Jóhannsson
Sigríður Einarsdóttir

Fróðleikur um leiðina:

Kálfsskarð er önnur tveggja mögulegra landleiða og eina hestfæra leiðin frá Siglufirði út á Siglunes. Hin leiðin (sem er sýnu styttri) liggur í miklu brattlendi um Nesskriður. Þar fara fáir nú til dags, enda leiðin varasöm ókunnugum. Hvor leiðin sem farin er liggur beinast við að hefja ferðalagið við kirkjugarðinn austan til við fjarðarbotninn og hlaupa fyrsta spölinn eftir Ráeyrarvegi út með firðinum (og flugvellinum). Eftir u.þ.b. 1,3 km er flugvöllurinn að baka og þar endar líka vegurinn og greinilegar götur taka við.

Eftir u.þ.b. 2 km hlaup liggur leiðin fram hjá rústum síldarverksmiðju norsku Evangerbræðranna, sem tekin var í notkun 1911 en eyðilagðist svo í snjóflóði úr Skollaskál í Staðarhólsfjalli í apríl 2019. Sá atburður er endursagður með eftirminnilegum og átakanalegum hætti í „60 kílóa“ þríleik Hallgríms Helgasonar. Áfram er svo haldið yfir Staðarhól, þar sem sjá má rústir samnefnds bæjar. Fyrir utan hólinn er stefnan tekin skáhallt hærra upp í hlíðina til að sleppa við mesta mýrlendið. Leiðin er auðrötuð eftir þægilegum fjárgötum.

Þegar um 4 km eru að baki er tekin kröpp hægri beygja og haldið upp Kambalágar áleiðis upp í Kálfsdal. Þegar horft er til baka úr brekkunum blasir Selvíkurviti við niðri á ströndinni. Um kílómetra ofar minnkar hallinn og þar er hlaupið áfram með Kálfsvatn á vinstri hönd. Framundan blasir Kálfsskarð við. Síðasti spölurinn upp í skarðið er brattur, enda er hækkunin um 200 m á 1 km kafla (20% halli).

Þegar horft er austur úr skarðinu blasir Hestfjall við handan Nesdals. Fyrsti kílómetrinn á niðurleiðinni er álíka brattur og síðasti kílómetrinn á uppleiðinni. Þarna liggur leiðin um lítt gróin holt sem eru gömul berghlaup. Stefnan er svo tekin niður og út Nesdal, þar sem lengst af er hægt að fylgja greinilegum fjárgötum sem þægilegt er að hlaupa. Svipaðri stefnu er haldið þar til komið er niður undir sjó vestan við bæinn Reyðará. Þaðan er svo fylgt greinilegum vegarslóða alla leiða að Siglunesi, með Nesnúp á vinstri hönd. Þessi síðasti spölur er rétt um 2 km og fljótfarinn.

Siglunes var landnámsjörð Þormóðs ramma. Þar var aðalkirkja Siglfirðinga um 600 ára skeið, en árið 1614 var hún flutt til Siglufjarðar. Siglunes var einnig öldum saman ein af mikilvægustu verstöðvum Íslands og þangað sóttu sjómenn til róðra víða að. Siglnesingar urðu fyrir miklu tjóni í aftakabrimi 1934 og eftir það fór staðnum hnignandi. Um þetta leyti bjuggu 40-50 manns á Siglunesi, en byggðin lagðist endanlega af árið 1990.

Ferðasagan:  

Við hlupum yfir Kálfsskarð fjögur saman á þriðjudegi um miðjan júní. Veðrið lék við okkur og leiðin reyndist greiðfarin og auðrötuð – og engar torfærur þótt enn væru fannir þegar ofar dró. Myndirnar og myndatextarnir segja annars ferðasöguna í öllum aðalatriðum.

Allur hópurinn tilbúinn við kirkjugarðinn við botn Siglufjarðar. (Ljósm. Björk Jóhannsd.).
Nýlögð af stað úr fjarðarbotninum.
Til að byrja með fylgdum við greinilegri götu meðfram ströndinni. U.þ.b. 1,8 km að baki.
Við rústir bæjarins á Staðarhóli tókum við stefnu hærra upp í hlíðina til að sleppa við mesta mýrlendið. Þarna voru u.þ.b. 2,3 km og 18 mín. að baki. Í baksýn sést Siglufjörður og beint yfir höfðum hlauparanna sést Afglapaskarð í fjallgarðinum. Siglufjarðarskarð er svo þar hægra megin við og þar sést móta fyrir veginum sem hlaupinn var (eða ekki hlaupinn) daginn áður.
Áfram haldið á ská út og upp hlíðina.
Greinileg fjárgata í hlíðinni, áfram veginn út að Selvíkurvita.
Horft til baka til Siglufjarðar í blíðunni.
Horft niður að Selvíkurvita úr mynni Kálfsdals. Hvanneyrarhyrna rís hæst handan fjarðar og utar eru Strákar.
Í mynni Kálfsdals með Siglufjörð í baksýn.
Haldið á brattann upp Kálfsdal.
Horft inn Kálfsdal. Þar liggur leiðin eftir greinilegum slóða sunnan við Kálfsvatn. Svo er Kálfsskarð framundan, vinstra megin við miðja mynd.
Komin langleiðina upp Kálfsdal. Kálfsvatn að baki.
Næstsíðasti áfanginn upp í skarðið. Þarna var nægur snjór og slóðinn löngu horfinn.
Rétt neðan við skarðið stóð þetta holt upp úr snjónum og þar kom slóðinn í ljós smástund.
Í Kálfsskarði í u.þ.b. 450 m hæð. 6,48 km og 1:29 klst. að baki.
Horft til baka niður Kálfsdal úr Kálfsskarði.
Horft til austurs úr Kálfsskarði yfir að Hestinum handan Nesdals.
Enn í Kálfsskarði, tilbúin að hlaupa niður í Nesdal.
Nýlögð af stað niður úr skarðinu. Þar liggur leiðin um lítt gróin holt sem eru gömul berghlaup.
Á fullri ferð niður fannirnar efst í hlíðum Nesdals.
Horft (og hlaupið) út Nesdal.
Á leið niður Nesdal. Fljótlega komum við á ágætis fjárgötu sem auðvelt var að fylgja.
Nærmynd af frískum fjallvegahlaupurum.
Þetta kallast að vera komin á beinu brautina. Kindurnar á Nesdal hafa vandað sig við vegagerðina og þarna er gaman að hlaupa!
Komin niður undir sjó vestan við Reyðará. Merktur slóði liggur nokkru nær Reyðará en við völdum að fara stystu leið niður í fjöruna.
Rekaviður í Fúluvík. Hún var samt alls ekki fúl, bara kyrrlát.
Á vegarslóðanum milli Reyðarár og Sigluness. Lengst til vinstri sést í Nesnúp og Siglunesvita – og svo Stráka handan fjarðar.
Horft til baka austureftir slóðanum að Reyðará. Bæjarhúsið sést ef vel er að gáð.
Endaspretturinn hafinn, með stefnu á Nesnúp og Siglunesvita. U.þ.b. 1,8 km eftir.
Endasprettur, taka tvö. Komin framhjá vitanum og örstutt eftir að Siglunesi.
Á leiðarenda í skjóli við skemmu á Siglunesi.
Endamarkið og svolítið útsýni inn Siglufjörð.

Lokaorð:

Kálfsskarð hentar einkar vel til fjallvegahlaupa. Leiðin er auðrötuð en að vísu frekar seinfarin, þar sem lengst af er fylgt krókóttum kindagötum. Eftir því sem nær dregur leiðarendanum verður saga genginna kynslóða áþreifanlegri og áminningin sterkari um þá öru samfélagsþróun sem orðið hefur á örfáum áratugum, þróun sem batt enda á 1100 ára búskaparsögu Sigluness og breytti því úr kostajörð og útgerðarstað í nánast óbyggilegan útjaðar.

Helstu heimildir:

  • Björn Þór Ólafsson, Hjalti Þórðarson o.fl. (2007): Gönguleiðir á Tröllaskaga II. Fljót – Siglufjörður – Ólafsfjörður – Svarfaðardalur. Háskólinn á Hólum.
  • Gils Guðmundsson (ritstj.) (1950): Átján enn láta lífið í miklum snjóflóðum við Siglufjörð. Í: Öldin okkar. Minnisverð tíðindi 1901-1930. (Bls. 173-175). Iðunn, Reykjavík.
  • Hallgrímur Helgason (2021): Sextíu kíló af kjaftshöggum. JPV Útgáfa, Reykjavík.
  • P. Ragnar Jónasson, Björn Þór Ólafsson, Hjörtur E. Þórarinsson, Bjarni E. Guðleifsson (1990): Fjalllendi Eyjafjarðar að vestanverðu – frá Almenningsnöf að Öxnadalsheiði. Árbók Ferðafélags Íslands 1990. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
  • Síldarminjasafn Íslands (2019): Mannskæðra snjóflóða minnst. http://www.sild.is/frettir/100-ar-fra-snjoflodi.

Þakkir:

  • Björk Jóhannsdóttir fyrir flutninga, veitingar og margs konar stuðning
  • Gestur Hansson hjá Top Mountaineering fyrir bátsferð og fróðleik