Hjálpleysa

Staðsetning: Frá Áreyjum í Reyðarfirði að Grófargerði á Völlum
Áfangar og hnattstaða:
Upphaf: 0,00 km ( 63 m), N65°01,56' – V14°20,86'
Hjálpleysuvarp: 6,56 km (810 m), N65°03,19' – V14°25,94'
Valtýshellir: 14,00 km (295 m), N65°06,42' – V14°28,54'
Lok: 18,90 km (146 m), N65°08,17' - V14°31,12'
Hæð y. sjó: 63 m við upphaf, 810 m hæst, 146 m við lok
Samanlögð hækkun: 819 m
Vegalengd: 18,90 km
Tími: 3:39:21 klst
Meðalhraði: 5,17 km/klst (11:36 mín/km)
Dags.: Þriðjud. 6. júlí 2021,kl. 10:22
Hlaupafélagar:
Birkir Þór Stefánsson
Gunnar Viðar Gunnarsson
Salome Hallfreðsdóttir
Sindri Þorkelsson

Fróðleikur um leiðina:

Fjallvegahlaupið um Hjálpleysu hefst við brúna yfir Áreyjaá inn af botni Reyðarfjarðar, rétt fyrir neðan bæinn Áreyjar. Fyrst er hlaupið eftir vegarslóða niður á áreyrarnar og síðan í boga í vinstri beygju eftir eyrunum þangað til slóðinn er tekinn að stefna til fjalls í norðvesturátt. Slóðinn nær nokkuð áleiðis upp bratta og grýtta hlíðina, en þegar u.þ.b. 2 km eru að baki tekur við troðin gata áleiðis upp á gróinn hjalla og síðan áfram inn Hjálpleysudal upp með Hjálpleysuá (áður Afréttará) að sunnanverðu, með ána á hægri hönd og Áreyjatind (971 m) til vinstri.

Gatan inn Hjálpleysudal er greinileg og því auðrötuð. Í suðurhlíð dalsins eru nokkur brött gil með lækjum sem þarf að vaða yfir – og eftir u.þ.b. 4,8 km er svo vaðið norðvestur yfir Hjálpleysuána sjálfa í u.þ.b. 580 m hæð, rétt fyrir neðan tilkomumikinn foss. Þaðan liggur svo leiðin upp Hjálpleysuvarp í jöfnum en krefjandi halla, næstum 2 km leið upp sléttan, tilkomumikinn haug af ljósleitu flögugrjóti. Þarna er fallegt í sólskini, hvort sem horft er á smáatriðin eða víðáttuna í grjótinu, eða litið um öxl og horft niður dalinn. Á Hjálpleysuvarpi er lítið um gróður, en lambagrasbrúskar gera umhverfið heillandi í hrjóstugleika sínum.

Eftir u.þ.b. 6,5 km hlaup er hæsta punkti leiðarinnar náð á Hjálpleysuvarpi. Þar rís Botnatindur (1.146 m) á vinstri hönd og Kistufell (1.164 til hægri). Af Hjálpleysuvarpi er farið niður bratta skriðu (um 180 m lækkun á 600 m kafla (30% halli)) í Lambavallaþröng niður í Hjálpleysuna sjálfa, sem er langur og þröngur dalur, eða nánast dalskora. Þar í gilbotninum rennur Lambavallaá og liggur leiðin hægra megin (norðaustan) við hana. Neðar í dalnum má sjá ummerki eftir gríðarmikla skriðu sem féll þarna í nóvember 2003.

Þegar rúmir 11 km eru að baki er komið á víðáttumiklar grjóteyrar sem nefnast Aur. Þetta hefur væntanlega verið vatnsbotn á sínum tíma eftir að mikið framhlaup, svonefndir Jarðfallshólar, stíflaði ána u.þ.b. 4 km neðar í dalnum. Við þetta myndaðist stórt uppistöðulón, sem nú er ekkert eftir af nema frekar lítið stöðuvatn, Hjálpleysuvatn, rétt ofan við hólana. Vatnið fer enn minnkandi vegna mikils framburðar og hugsanlega einnig vegna þess að Gilsá, sem úr því rennur, grefur sig smám saman dýpra í Jarðfallshólana.

Rétt áður en komið er að Hjálpleysuvatni birtist hellir á hægri hönd, við Kinnarlæk þar sem u.þ.b. 14 km eru búnir af hlaupinu. Þetta er Valtýshellir þar sem Valtýr nokkur, bóndi á Eyjólfsstöðum eða Höfða á Völlum, á að hafa hafst við eftir að hann var sakaður um morðið á sendimanni sýslumanns, Símoni að nafni. Morðið var framið niðri á Völlum, nánar tiltekið sunnan við bæinn Ketilsstaði. Símon var með lífsmarki þegar hann fannst og náði að nefna „Valtý á grænni treyju“ áður en hann gaf upp öndina. Valtýr var sakfellur á grundvelli þessara andlátsorða og dæmdur til dauða á Egilsstaðaþingi. Aftöku Valtýs fylgdu mikil harðindi á Austurlandi, svonefndur Valtýsvetur, sem stóð í þrjú ár, þ.e.a.s. allt þar til annar Valtýr gaf sig fram og var líflátinn fyrir morðið. Líklega hefur réttvísin því farið Valtýavillt þegar bóndinn á Eyjólfsstöðum var dæmdur. Heimildum ber að vísu ekki alveg saman um þessa atburðarás eða tímasetningu hennar. Snorri Helgason, tónlistarmaður, er einn þeirra sem gert hefur sögu Valtýs á grænni treyju að yrkisefni, nánar tiltekið á plötunni Margt býr í þokunni, sem kom út árið 2017. Utan við hellismunna Valtýshellis er líparitmelur og þar er gestabók í þar til gerðum hólki.

Frá Valtýsvatni er haldið áfram í sömu stefnu niður að Hjálpleysuvatni og svo meðfram vatninu hægra megin (að austanverðu). Þar upp af rís fjallið Höttur (1.106 m), sem sumir telja að hafi upphaflega heitið Hátúnahöttur. Höttur og Hjálpleysa koma bæði fyrir í vísu sem Páll Ólafsson sendi vini sínum einhvern tímann í ljóðabréfi. Þessa vísu lærði ég í æsku, án þess að skilja allt innihaldið eða þekkja örnefnin. Hér er hún skrifuð eftir minni:

Ég skal vera vinur þinn
vélafár og tryggur
þar til herra Hötturinn
Hjálpleysuna liggur.

Frá Hjálpleysuvatni er hlaupið áfram niður með Gilsá um þröngar götur á svæði sem nefnist Þröng. Þar fyrir neðan tekur Hjálpleysa enda og við tekur flatara og viðáttumeira land. Þá er varla meira en 2,5 km eftir niður á aðalveginn inn Skriðdal, þar sem hlaupið endar nokkru norðan við brúna yfir Gilsá, nokkurn veginn beint á móts við Grímsárvirkjun. Á síðasta kílómetranum er farið framhjá fornbýlinu Hátúnum.

Leiðin um Hjálpleysu var fjárrekstrarleið um tíma og oft farin að sumarlagi. Hjálpleysa var þó ekki ein af aðalleiðunum milli Héraðs og fjarða, enda leiðin víða brött og þröng, ekki vel fær á hestum og snjóflóðahætta í bröttum hlíðum beggja vegna. Líklegt má telja að Þórudalsheiði, sem liggur á milli sömu byggðarlaga nokkru sunnar, hafi frekar verið valin til ferða þarna á milli, enda leiðin þar yfir ekki nærri eins aðþrengd. Fjárskaði varð í rekstri yfir Hjálpleysu skömmu fyrir 1950 þegar fjárhópur á leið til slátrunar á Reyðarfirði rann niður fannir austur af Hjálpleysuvarpi.

Ferðasagan:  

Við hlupum fimm saman yfir Hjálpleysu á fallegum þriðjudegi. Sól skein í heiði allan daginn og hitinn fór í 20°C, þótt þoka væri á fjörðunum. Þetta var seinfarið og ferðalagið tók okkur rúmlega þrjá og hálfan tíma. Þetta var góður dagur, eins og allir dagar verða í svona góðu veðri og svona góðum félagsskap. Ferðasagan endurspeglast annars í öllum aðalatriðum í myndum í þar til gerðu myndasafni á Facebooksíðu Fjallvegahlaupaverkefnisins.

Lokaorð:

Hjálpleysa er tilkomumikil og erfið yfirferðar á köflum. Leiðin upp að austanverðu er brött og hlaupalandið í Hjálpleysu er með því hrjóstugra, sérstaklega innantil í dalnum. Þar eru snarbrattar skriður til beggja handa og það litla undirlendi sem þó er til staðar nýtir Gilsá að miklu leyti sjálf. Stundum stendur því valið um að hlaupa í miklum hliðarhalla í skriðunum eða beinlínis eftir ánni. Leiðin hentar ekki vel fyrir óvana og fótfúna – og líklega er best að enginn sé þarna á ferli um vetur og vor vegna mikillar skriðu- og snjóflóðahættu. Sumarið er tíminn í Hjálpleysu.

Helstu heimildir:

  • Ferðafélag Fljótsdalshéraðs (2004): Útivist á Fljótsdalshéraði. Gönguleiðir á Austurlandi VI. Gönguleiðakort. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs.
  • Hjörleifur Guttormsson (2008): Úthérað ásamt Borgarfirði eystra, Víkum og Loðmundarfirði. Árbók Ferðafélags Íslands. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.

Þakkir:  

Björk Jóhannsdóttir fyrir flutninga og margs konar aðstoð