Tunguheiði í Sléttuhreppi

Staðsetning: Frá Látrum í Aðalvík að Glúmsstöðum í Fljótavík
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:      0,00 km, N66°23,49' - V23°01,76'
Vegamót við Hóf: 1,80 km, N66°24,05' - V22°59,91'
Grafahjalli:   2,80 km, N66°24,19' - V22°58,97'
Drekavötn(?):   4,00 km, N66°24,79' - V22°58,53'
Tunguheiði:    5,00 km, N66°25,34' - V22°58,12'
Tunga:      7,60 km, N66°25,86' - V22°55,80'
Lok:       11,70 km, N66°24,58' - V22°52,21'
Hæð y. sjó: U.þ.b. 0 m við upphaf, um 430 m hæst, um 20 m við lok
Samanlögð hækkun: Verður skráð að hlaupi loknu 
Vegalengd: Um 12,00 km
Tími: Verður skráður að hlaupi loknu
Meðalhraði: Verður skráður að hlaupi loknu
Dags.: Þriðjud. 4. júlí 2023, kl. 12:00 (eða að loknu hlaupi yfir Hesteyrarskarð)
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina (enn í smíðum):

Tunguheiði er fremur greiðfær fjallvegur milli Aðalvíkur og Fljótavíkur og þar yfir gengu m.a. börn úr Fljótavík til skóla á Látrum í Aðalvík. Þarna yfir er líka sagt að Júlíus Geirmundsson, bóndi á Atlastöðum í Fljótavík, hafi skokkað eftir hvern róður frá Látrum til að færa heimilsfólkinu á Atlastöðum fisk í soðið – og verið svo mættur aftur í róður frá Látrum næsta morgun.

Fjallvegahlaupið yfir heiðina hefst á tjaldstæðinu í Látrum. Leiðin liggur til norðausturs með Grasdalsfjall á vinstri hönd eftir vegi sem var lagður fyrir bandaríska herinn 1953 þegar framkvæmdir hófust við byggingu ratsjárstöðvar á Straumnesfjalli norðan við Aðalvík. Þetta var ári eftir að byggð lagðist af í Sléttuhreppi og því engin mannabyggð í nágrenninu. Stöðin var tekin í notkun 1956 og þegar mest var voru þar um 100 hermenn. Ekki voru allir hrifnir af þessum umsvifum. Jakobína Sigurðardóttur skáldkona frá Garði í Mývatnssveit (1918-1994), sem var fædd og uppalin í Hælavík, var ein þeirra sem óskaði þess ekki að herinn dveldi þarna til langframa. Hún kvað m.a.:

Láttu fóstra, napurt um þá næða
norðanélin þín,
fjörudrauga og fornar vofur hræða.
Feigum villtu sýn, ….

Ætla mætti að orð Jakobínu hafi orðið að áhrínsorðum, því að dátarnir undu illa vist sinni á Straumnesfjalli í illviðrum og fásinni, sumir jafnvel svo illa að þeir stukku fyrir björg. Stöðin var svo lögð niður 1960, aðeins fjórum árum eftir að hún var fyrst mönnuð. Eftir stóð all kyns úrgangur og mikil mannvirki, sem m.a. urðu sviðsmynd fyrir lokaatriði myndarinnar Börn náttúrunnar.

Þegar komið er u.þ.b. 2 km frá Látrum er komið fyrir fjallsendann, sem nefnist Hófur, og upp á lágan háls sem skilur að Aðalvík og Rekavík bak Látur. Þar væri hægt að beygja til vinstri á veginn upp Straumnesfjall, eða taka strikið niður í Rekavík. Þess í stað beygja fjallvegahlauparar til hægri áleiðis að Tunguheiði, upp Grafahlíð, upp á svonefnda Hálsa og áfram nálægt Drekavötnum. Á þessari leið á að vera hægt að fylgja vörðum. Síðasti spölurinn upp á Tunguheiði er nokkuð brattur. Þar efst heitir Kjölur og heiðin sjálft einkennist af gróðurlitlum grjóthjöllum. Efst uppi má sjá hrúgur af hellugrjóti sem skófir vaxa á. Síðan taka við brekkur niður af heiðinni, einnig nokkuð brattar. Þar er farið um Kjölbrekku og Rangala niður í Tungudal. Á þessari leið eru greinilegar götur, hlaðnar úr hellugrjóti af heiðinni. Síðasta spölinn er hlaupið niður með Tunguá að vestanverðu, þ.e.a.s. með ána á hægri hönd. Vaðið er austur yfir ána á móts við bæjarstæðið í Tungu í Fljótavík. Þar endar fjallvegurinn yfir Tunguheiði í reynd, en þar sem vegalengdin frá Látrum að Tungu er ekki nema um 7,6 km er upplagt að halda áfram inn með Fljótinu (Fljótsvatni, Atlastaðavatni eða Glúmsstaðavatni) alla leið að Glúmsstöðum. Þá er heildarvegalengdin farin að nálgast 12 km – og þaðan er líka hægt að leggja rakleitt upp í fjallvegahlaup suður yfir Háuheiði að Hesteyri.

Í Fljótavík var lengi búið á þremur bæjum, þ.e.a.s. Tungu og Glúmsstöðum sem fyrr eru nefndar – og svo á Atlastöðum gegnt Tungu handan Fljótsins. Í Jarðabók Árna og Páls voru Tunga og Atlastaðir metnar á 6 hundruð hvor, en Glúmsstaðir á 4 hundruð. Munurinn lá einkum í möguleikunum á að sækja fisk í soðið af ytri bæjunum. Reyndar leiddi Þorvaldur Thoroddsen að því líkum í Ferðabók sinni frá 1887 að þarna hafi lítið fiskast annað en skata. Og sennilega hefur Fljótavík aldrei verið blómlegt landbúnaðarsvæði, enda voru þar „jarðbönn oftast öllum vetrum og á sumrum tíðast óþerrar með þokufýlu og stórslögum af norðri“ (GÁG, bls. 137).

Tunga fór í eyði 1945 en Atlastaðir ári síðar. Árið 1927 voru þáverandi ábúendur í Tungu fluttir hreppaflutningum að Sætúni í Grunnavík, en þetta eru sagðir hafa verið einhverjir síðustu hreppaflutningar á Íslandi. Þá bjuggu í Tungu hjónin Hans E. Bjarnason (bróðir Þórleifs sem skrifaði Hornstrendingabók), kona hans Jónína Jónsdóttir, foreldrar Hans og tvö ung börn hjónanna. Þegar fólkið var sótt hafði það verið bjargarlaust í eina eða tvær vikur, var orðið máttfarið og konurnar með skyrbjúg. Veturinn hafði líka verið „afar þungur og harður, bærinn sem þúst í fannferginu. Útihús varð Hans að rífa og leggja viðinn úr þeim í eldinn til þess að halda yl í fólkinu sínu“ (GÁG, bls. 138). Eitthvað höfðu nágrannarnir fært fólkinu mat, en erfitt var um vik með slíkt vegna ófærðar innan sveitar. Vel er hægt að hugsa sér að svipuð staða hafi iðulega komið upp á Hornströndum þegar vetur voru þungir, matarbirgðir litlar og ekki hægt að sækja sjóinn. Fólk annað hvort lifði eða dó – og ef það dó gátu liðið vikur eða mánuðir þar til af því fréttist á öðrum bæjum eða þangað til hægt var að flytja lík til greftrunar. Ástandið í Tungu 1927 minnir á lýsingar Jóns Kalmans Stefánssonar í bókinni Harmur englanna. Fegurð Hornstranda á sumardegi í nútímanum segir fátt um lífsbaráttu síðustu alda, nema sagan sé lesin og hugurinn látinn leita skýringa á því hvers vegna enginn hafi átt þarna fasta búsetu síðan um miðja 20. öld.

Á Glúmsstöðum var enn harðbýlla en á ytri bæjunum í Fljótavík, mjög snjóþungt á vetrum og tók seint upp. Beitiland var gott á sumrin og mikill silungur í ám og vötnum, en öðrum hlunndinum varla til að dreifa. Búseta á Glúmsstöðum var ekki stöðugt og síðast var búið þar 1920.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu.

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu.

Helstu heimildir:

 • Guðrún Ása Grímsdóttir (1994): Ystu strandir norðan Djúps. Um Kaldalón, Snæfjallaströnd, Jökulfirði og Strandir. Árbók Ferðafélags Íslands 1994. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Gunnar Þórðarson (á.á): Gönguleiðin frá Glúmsstöðum að Bæjarnesi. Fljótavík.is. https://www.fljotavik.is/gongulysingar/gth-glumstadir-ad-baejarnesi.
 • Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2009): Vestfirðir og Dalir 1. Hornstrandir/Jökulfirðir. Gönguleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
 • Hornstrandir.is (á.á): Átthagafélag Sléttuhrepps. http://www.hornstrandir.is/atthagafelag_slettuhrepps.
 • Jón Kalman Stefánsson (2009): Harmur englanna. Bjartur, Reykjavík.