Þorleifsskarð

Staðsetning: Frá Kjaransvík að Glúmsstöðum í Fljótavík
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:     0,00 km, N66°24,92' - V22°42,67'
Kjalará:     1,80 km, N66°25,26' - V22°43,97'
Almenningaskarð: 3,50 km, N66°25,98' - V22°45,25'
Þorleifsskarð:  6,50 km, N66°25,48' - V22°48,38'
Reiðá:      8,70 km, N66°24,80' - V22°50,26'
Lok:      10,80 km, N66°24,58' - V22°52,21'
Hæð y. sjó: U.þ.b. 0 m við upphaf, um 467 m hæst, um 0 m við lok
Samanlögð hækkun: Verður skráð að hlaupi loknu 
Vegalengd: Um 11,00 km
Tími: Verður skráður að hlaupi loknu
Meðalhraði: Verður skráður að hlaupi loknu
Dags.: Miðvikud. 5. júlí 2023, kl. 11:30 (eða að loknu fjallvegahlaupi um Kjaransvíkuskarð)
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina (enn í smíðum):

Frá Kjaransvík liggur hrjóstrug en að miklu leyti stikuð leið um Almenningaskarð og Þorleifsskarð til Fljótavíkur. Frá Kjaransvík er haldið vestur og út með víkinni og síðan skáhallt upp brattann til norðvesturs, fyrst um lyngbrekkur en síðan um grýttan bratta áleiðis upp Kjalarárnúp að Almenningaskarði. Efst í fjallinu er brattir hjallar og skriður og í skarðinu er hæsti punktur leiðarinnar. Fannir liggja í skarðinu langt fram eftir sumri og jafnvel allan ársins hring.

Eftir að komið er yfir Almenningaskarð er tekin vinstri beygja og hlaupið til suðvesturs og vesturs um stórgrýtta hjalla að Þorleifsskarði, sem er engu minna hrjóstrugt. Stikur ættu að vísa veginn, en þær standa illa í því landslagi og veðurlagi sem þarna ríkir. Úr skarðinu liggur leiðin niður skriður til suðvesturs niður að Fljótinu í Fljótavík, yfir Reiðá og svo inn fyrir Fljótið að Glúmsstöðum þar sem hlaupið endar.

Skiptar skoðanir kunna að vera á því hvar Hornstrandir byrji og endi. Nú til dags finnst sennilega flestum eðlilegast að líta svo á að Hornstrandir hefjist þar sem mjóst er yfir Vestfjarðakjálkann, þ.e. á milli Hrafnsfjarðar innst í Jökulfjörðum og Furufjarðar á Ströndum. Þar liggja líka mörk Hornstrandafriðlandsins. Með þessu myndi öll norðurströnd Jökulfjarða tilheyra Hornströndum. Þorvaldur Thoroddsen taldi Hornstrandir ná frá Rit, sunnan við Aðalvík og norður og austur um þaðan, sem þýðir þá væntanlega að norðurströnd Jökulfjarða lendir utan svæðisins. Þórleifur Bjarnason tekur undir þetta í Hornstrendingabók og telur eðlilegt að miða við svæðið frá Rit, norður og austur um að Geirólfsgnúp. Reyndar fjallar Þórleifur um Hesteyri og Sléttu sem hluta af Hornstrandasvæðinu, enda hefðu þessar byggðir tilheyrt Sléttuhreppi rétt eins og öll strandlengjan norður að Horni, „hver sem hin réttlátu landfræðitakmörkin kunna að vera“ (ÞB, bls. 19).

Þórleifur bendir á að e.t.v. hafi menn „haft nokkra tilhneigingu til þess að losna við þann dónaskap að vera nefndir Hornstrendingar og reynt að takmarka nafnið við sem minnstan blett og jafnvel að færa takmörkin austur og vestur eftir því, sem við átti“. Hornstrendingur hefði „verið skammaryrði í málinu svipað og Íslendingur í máli erlendra fávita“ (ÞB, bls. 18). Syðst á svæðinu, svo sem í Aðalvík, hefði gjarnan verið litið svo á að Hornstrandir hæfust norðan Kögurs, en það myndi þýða að jafnvel Fljótavík væri ekki á Hornströndum. Hvernig sem á þetta er litið er þó engum vafa undirorpið að Þorleifsskarð er á Hornströndum.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu.

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu.

Helstu heimildir:

 • Guðrún Ása Grímsdóttir (1994): Ystu strandir norðan Djúps. Um Kaldalón, Snæfjallaströnd, Jökulfirði og Strandir. Árbók Ferðafélags Íslands 1994. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2009): Vestfirðir og Dalir 1. Hornstrandir/Jökulfirðir. Gönguleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
 • Hornstrandir.is (á.á): Átthagafélag Sléttuhrepps. http://www.hornstrandir.is/atthagafelag_slettuhrepps.
 • Þórleifur Bjarnason (1976): Hornstrendingabók. Land og líf. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík.