Kjaransvíkurskarð

Staðsetning: Frá Hesteyri til Kjaransvíkur
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:       0,00 km, N66°20,17' – V22°52,58'
Kjaransvíkurskarð:  9,00 km, N66°23,20' - V22°44,83'
Lok:        13,40 km, N66°24,92' - V22°42,67'
Hæð y. sjó: U.þ.b. 0 m við upphaf, um 426 m hæst, um 0 m við lok
Samanlögð hækkun: Verður skráð að hlaupi loknu 
Vegalengd: Um 13,00 km
Tími: Verður skráður að hlaupi loknu
Meðalhraði: Verður skráður að hlaupi loknu
Dags.: Miðvikud. 5. júlí 2023, kl. 8:00
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina (enn í smíðum):

Milli Hesteyrar og Kjaransvíkur liggur gömul vörðuð leið eftir þokkalega greinilegri götu. Leiðin var fjölfarin á sínum tíma, enda greiðasta leiðin milli Norðurstranda og þéttbýlisins á Hesteyri, þar sem bæði var kaupmaður, læknir, verslun, skóli og lestrarfélag. Frá Hesteyri bar fólk matvöru og aðrar nauðþurftir yfir fjallvegi til afskettra og harðbýlla bæja á norðurströndum, t.d. yfir Kjaransvíkurskarð. Í þeim ferðum komu hvorki utanvegahlaupaskór né GPS-úr við sögu.

Til viðbótar allri annarri starfsemi sem einkenndi lífið á Hesteyri þegar best lét var þar um tíma gefið út blaðið Hesteyringur. Jón Friðfinnur Kjærnested, sem ráðinn var til Hesteyrar sem kennari 1884, stóð fyrir þessari útgáfu, enda var hann „maður hins nýja tíma, fulltrúi endurreisnarinnar, sem vildi vekja til framfara og andlegrar grósku“ (ÞB, bls. 176). Eftir að Jón var horfinn til annarra starfa var blaðið enn um sinn gefið út undir nafninu Áhugi.

Fjallvegahlaupið yfir Kjaransvíkurskarð hefst á Hesteyri. Fyrst er hlaupið yfir ána sem rennur niður með Læknishúsinu að innanverðu – og þá ætti að blasa við varða á áberandi klapparholti til vinstri. Í grennd við vörðuna er komið inn á greinilegan slóða sem liggur áleiðis upp og inn Hesteyrarbrúnir. Brekkan upp á brúnirnar er almennt kölluð Kúsbrekka, en kannski er Kúfsbrekka rétti skrifmátinn. Þegar snjór settist í brekkurnar töluðu Hesteyringar um að „kúfurinn stækkaði“.

Í stað þess að stefna strax upp í Hesteyrarbrúnir væri hægt að halda áfram meðfram sjónum inn með Hesteyrarfirði, framhjá gömlu hvalveiðistöðinni á Stekkeyri, og síðan upp brekkur úr fjarðarbotninum. Á vetrum var fólk gjarnan ferjað með báti frá Hesteyri inn í fjarðarbotninn til að stytta gönguna norðuryfir, en leiðin upp þaðan er torfarin og því líklega betra fyrir fjallvegahlaupara að halda sig uppi á brúnunum.

Hvalveiðistöðin á Stekkeyri var byggð 1894 og var hluti af stórsókn norskra hvalveiðimanna á íslensk mið eftir að búið var að ganga svo nærri hvalastofnum við Noreg að þarlend stjórnvöld sáu sitt óvænna og friðuðu hvali árið 1880. Norðanverðir Vestfirðir hentuðu einkar vel til þessara veiða, því að þar söfnuðust hvalir fyrir á vetrum á flótta undan hafís, sérstaklega á harðindaárum eins og á 9. áratug 19. aldar. Um tíma voru átta hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum, þar af fimm við Ísafjarðardjúp og í Jökulfjörðum. Hvölum á svæðinu fækkaði líka stórlega á fáeinum árum og um aldamótin 1900 var veiðin orðin aðeins brot af því sem hún var í byrjun. Um það leyti var talsverð umræða komin í gang um nauðsyn þess að friða hvali eins og gert hafði verið í Noregi. Lög sem bundu enda á hvalveiðar Norðmanna við Ísland tóku svo loks gildi haustið 1915. „Þar með lauk þrjátíu og tveggja ára hóflausum hernaði á hvalstofninn hér við land“, eins og Þórleifur Bjarnason orðar það í Hornstrendingabók.

Stöðin á Stekkeyri stóð auð í fimm ár eftir að hvalveiðum lauk, en var síðar breytt í síldarbræðslustöð. Hún var starfrækt 1920-1940, fyrst undir norskri stjórn en síðar íslenskri.

Þegar komið er upp í brúnirnar fyrir innan Hesteyri er stefnt áfram í norðaustur inn Innri-Hesteyrarbrúnir með Kistufell á vinstri hönd. Þar á að hafa búið óvættur, „nakinn, loðinn sem hestur og sáust kringlótt spor hans í snjó“. Hann var tvífættur og út úr herðablöðum gengu langir vængir, en þar fyrir ofan digur háls með „afskaplega ljótu hesthöfði ofaná“. Hlauparar á þessum slóðum ættu þó ekki að þurfa að óttast óvættinn, því að einhvern tímann á árunum í kringum 1700 tókst einhverjum að stinga hann á hol. Síðan hefur ekkert til hans spurst.

Þegar komið er drjúgan spöl inn fyrir botn Hesteyrarfjarðar er farið upp Andbrekkur og skömmu síðar er hæsta punkti leiðarinnar náð í Kjaransvíkurskarði með Geldingafell (598 m) á vinstri hönd og Vatnalautafjöll (618 m) hægra megin. Síðasti spölurinn upp í skarðið er brattur, en úr skarðinu er stórbrotið útsýni til norðurs, þar sem „fjall rís við fjall og skörðin marka farnar leiðir og ófarnar“ (GÁG, bls. 100). Framundan eru Víkur, þ.e.a.s. Kjaransvík, Hlöðuvík og Hælavík (talið frá vinstri), og lengst út til hægri gnæfir Hælavíkurbjarg.

Úr skarðinu er hlaupið niður Vatnalautir og Vatnadal með Álfsfell (584 m) á hægri hönd, niður að Grásteini á bakka Kjaransvíkurár og loks niður undir fjöruborðið þar sem hlaupið endar.

Kjaransvík er vestust af víkunum þremur sem almennt eru einfaldlega kallaðar Víkur. Kjaransvíkurbærinn stóð vestast í víkurbotninum. Nokkru austar er svo Álfsfell sem myndar skil á milli Kjaransvíkur og Hlöðuvíkur, sem virðist reyndar vera ein og sama víkin þegar horft er á landakort. Bærinn í Hlöðuvík stóð um aldir austan við Álfsfell, en fluttist síðar að Búðum sem standa spölkorn út með víkinni að austanverðu. Þar er nú slysavarnarskýli. Utan við Búðir er Ófærubjarg og þar fyrir utan stóð Hælavíkurbærinn. Bæjarleiðin þar á milli var erfið yfirferðar, en auðveldast var að fara á „bak við“ Ófærubjarg um svonefnda Skál. Þar er einnig hægt að fara um Atlaskarð til Rekavíkur í Hornvík. Ekkert af þessu er þó á dagskrá þessa fjallvegahlaups, sem endar sem fyrr segir í Kjaransvík.

Snjóþungt er í Kjaransvík en landið var talið sæmilegt til beitar þegar vel áraði. Fólkið sem þarna bjó varð þó að treysta á aðrar fæðutegundir en lambakjötið eitt og sér, einkum sjávarfang og fugl úr Hælavíkurbjargi, með öllum þeim áhættum sem því fylgdu. Saltaður bjargfugl er sennilega heldur ekki holl fæða sé hann borðaður í alla mata. Í ferð sinni um þetta svæði seint á 19. öld hitti Þorvaldur Thoroddsen bóndann á nágrannabænum Hlöðuvík, sem sagðist svo frá að sínu fólki hefði heilsast sýnu betur en fólkinu í Kjaransvík, enda var grasatekja í Hlöðuvík „bjargleg“ og bóndinn nógu fyrirhyggjusamur til að birgja sig upp af skarfakáli og hvönnum sem dugði sem fæðubótarefni allan veturinn.

Kjaransvík fór í eyði árið 1921 þegar síðustu ábúendurnir, hjónin Guðmundur Þorvaldsson og Svanborg Rósinkarsdóttir, fluttu þaðan. Guðmundur var góður vegghleðslumaður og þess sjást enn merki í Kjaransvík ef vel er gáð.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu.

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu.

Helstu heimildir:

 • Guðrún Ása Grímsdóttir (1994): Ystu strandir norðan Djúps. Um Kaldalón, Snæfjallaströnd, Jökulfirði og Strandir. Árbók Ferðafélags Íslands 1994. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2009): Vestfirðir og Dalir 1. Hornstrandir/Jökulfirðir. Gönguleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
 • Hornstrandir.is (á.á): Átthagafélag Sléttuhrepps. http://www.hornstrandir.is/atthagafelag_slettuhrepps.
 • Þórleifur Bjarnason (1976): Hornstrendingabók. Land og líf. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík.