Hesteyrarskarð

Staðsetning: Frá Hesteyri að Látrum í Aðalvík
Áfangar og hnattstaða: 
Upphaf:      0,00 km, N66°20,17' – V22°52,58'
Hesteyrarskarð:  4,10 km, N66°21,46' - V22°55,73'
Austan Álfalægða: 5,00 km, N66°21,89' - V22°56,38'
Stakkadalsbrún:  6,50 km, N66°22,26' - V22°58,30'
Stakkadalsós:   8,40 km, N66°22,89' - V22°59,31'
Lok:       10,80 km, N66°23,49' - V23°01,76'
Hæð y. sjó: U.þ.b. 0 m við upphaf, 274 m hæst, um 0 m við lok
Samanlögð hækkun: Verður skráð að hlaupi loknu 
Vegalengd: Um 11,00 km
Tími: Verður skráður að hlaupi loknu
Meðalhraði: Verður skráður að hlaupi loknu
Dags.: Þriðjud. 4. júlí 2023, kl. 9:00
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina (enn í smíðum):

Hesteyrarskarð var fyrrum alfaraleið milli þorpanna á Hesteyri og í Látrum í Aðalvík, greið og auðrötuð. Frá Hesteyri liggur leiðin til norðvesturs upp með Hesteyrará eftir nokkuð greinilegri götu allt upp í Hesteyrarskarð, með Búrfell (498 m) á vinstri hönd og Kagrafell (507 m) til hægri. Þarna var byggður vegur um miðja 20. öld – og enn má víða sjá haganlega hlaðna vegkanta og ræsi sem þjóna hlutverki sínu. Eins og Páll Ásgeir Ásgeirsson orðar það í bók sinni um gönguferðir á Hornströndum voru menn á þessum tíma búnir að átta sig á „að bættar samgöngur voru lykillinn að nútímanum en urðu of seinir að snúa honum í skránni“ (PÁÁ, bls. 32). Meðfram veginum eru líka símastaurar, sem sömuleiðis má líta á sem tilraun til að halda svæðinu í byggð. Um eða rétt fyrir 1940 var lagður sæstrengur frá Grunnavík til Hesteyrar og væntanlega hefur símalínan yfir Hesteyrarskarð að Látrum komið í framhaldi af því, svo og lína frá Hesteyri að þorpinu á Sæbóli syðst í Aðalvík. Þar með voru þessi þorp komin í samband við umheiminn.

Úr skarðinu er í raun um tvær leiðir að velja. Önnur leiðin liggur til vesturs áleiðis niður í Miðvík, en rétta leiðin í þessu fjallvegahlaupi liggur í norðnorðvestur í átt að Álfalægðum. Vestan við lægðirnar er komið fram á brún Stakkadals. Þaðan liggur nokkuð greinilegur göngustígur í sneiðingi niður Stakkadalsbrekkur og framhjá Stakkadalsbænum, sem fór endanlega í eyði 1943. Áfram er svo haldið að Stakkadalsósi, hann þarf að vaða og þá er gott að hafa í huga að sandbleytur geta verið í botninum. Þarna eru um 8,5 km að baki og í mesta lagi 2,5 km eftir yfir Látramel, eða bara Melinn, eins og sandflæmið meðfram sjónum austast í Aðalvík er gjarnan kallað. Líklega þarf engan að undra að sandfok hafi verið til skaða í Látrum, eins og fram kemur í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín. Ein sérstök hliðarafleiðing sandfoksins var að sand skóf oft yfir snjóskafla, sem varðveittust fyrir bragðið fram eftir sumri. Þess vegna reru fiskimenn stundum upp í Stakkadalsós til að sækja sér klaka til að ísa beitu. Önnur aukaverkun var að þegar snjórinn loks bráðnaði mynduðust pyttir sem sáust illa á yfirborðinu.

Hlaupið endar við tjaldstæðið í Látrum. Þar skammt frá standa enn nokkur hús sem er vel við haldið sem sumarhúsum. Látrar voru á sínum tíma meðal verðmestu jarða norðan Djúps, metnir 24 hundruð að dýrleika, rétt eins og Hesteyri. Á fyrri hluta 20. aldar var þorp í Látrum, enda stutt á góð fiskimið þaðan. Af þeim sökum byggðust Látrar upp sem útgerðarstaður í kjölfar vélbátavæðingar í byrjun aldarinnar. Árið 1920 bjuggu 130-140 manns í Látraþorpinu og um það leyti voru nokkrir vélbátar gerðir út frá staðnum. Bæði þar og á Hesteyri var meira að segja saltfiskverkun um tíma og þegar mest var voru fleiri en 10 vélbátar gerðir út frá verstöðum í Sléttuhreppi. Á Látrum var ein þriggja deilda Verkalýðsfélags Sléttuhrepps og þar var líka skóli. Framfarafélagið Æskan á Látrum beitti sér fyrir byggingu skólahússins og færði svo Sléttuhreppi það að gjöf haustið 1899.

Látrar fóru í eyði 1952 eins og reyndar Sléttuhreppur allur. Þá var stríðið að baki og fólk hafði fengið pata af breyttum tíðaranda og nýjum væntingum um lífsgæði, sem voru skilgreind öðruvísi en lífsgæði áratuganna og aldanna þar á undan. Sem dæmi um öra hnignun byggðarinnar má nefna að árið 1910 voru 463 íbúar í Sléttuhreppi, árið 1940 voru þeir enn 405 en árið 1950 ekki nema 32. Þeim sem koma í Sléttuhrepp að sumarlagi finnst mikið til um kyrrðina og náttúrufegurðina, en af gömlum sögum má ráða að lífsbaráttan hafi ekki verið viðlíka rómantísk þegar þreyja þurfti veturinn með mannmargar fjölskyldur við þann fremur þrönga kost sem tókst að afla á landi yfir sumarmánuðina og með áhættusamri sjósókn á öðrum árstímum.

Skiptar skoðanir kunna að vera á því hvar Hornstrandir byrji og endi, en í Hornstrendingabók Þórleifs Bjarnsonar kemur fram að hann telji eðlilegt að miða við svæðið frá Rit, norður og austur um að Geirólfsgnúp. Þórleifur fjallar um Hesteyri og Sléttu sem hluta af Hornstrandasvæðinu, enda hefðu þessar byggðir tilheyrt Sléttuhreppi rétt eins og öll strandlengjan norður að Horni, „hver sem hin réttlátu landfræðitakmörkin kunna að vera“ (ÞB, bls. 19).

Í Hornstrendingabók kemur fram að langt fram á 19. öld hafi Hornstrendingar óttast hlaupara. Þeir sem nú hlaupa um Hornstrandir valda þó íbúum varla miklu hugarangri, annars vegar vegna þess að þar hefur enginn haft fasta búsetu síðan 1952 – og þá var 19. öldin reyndar löngu búin, og hins vegar vegna þess að fyrr á tímum var orðið „hlauparar“ notað yfir flótta – og sakamenn sem leituðu vars á þessu afskekkta svæði og áttu þá jafnvel til að halda áfram þeirri brotastarfsemi sem áður hafði hrakið þá frá öðrum landshlutum.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu.

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu.

Helstu heimildir:

 • Guðrún Ása Grímsdóttir (1994): Ystu strandir norðan Djúps. Um Kaldalón, Snæfjallaströnd, Jökulfirði og Strandir. Árbók Ferðafélags Íslands 1994. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2009): Vestfirðir og Dalir 1. Hornstrandir/Jökulfirðir. Gönguleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
 • Hornstrandir.is (á.á): Átthagafélag Sléttuhrepps. http://www.hornstrandir.is/atthagafelag_slettuhrepps.
 • Páll Ásgeir Ásgeirsson (2007): Hornstrandir. Gengið um eyðibyggðir frá Snæfjallaströnd til Ingólfsfjarðar. Mál og menning, Reykjavík.
 • Þórleifur Bjarnason (1976): Hornstrendingabók. Land og líf. Bókaútgáfan Örn og Örlygur hf., Reykjavík.