Staðsetning: Frá Glúmsstöðum í Fljótavík að Hesteyri Áfangar og hnattstaða: Upphaf: 0,00 km, N66°24,58' - V22°52,21' Glúmsstaðadalur: 0,90 km, N66°24,23' - V22°52,34' Dalbotn: 3,00 km, N66°23,22' - V22°52,31' Háaheiði: 3,40 km, N66°23,09' - V22°52,40' Austan við Kagrafell: 6,20 km, N66°21,72' - V22°52,91' Lok: 9,60 km, N66°20,17' – V22°52,58' Hæð y. sjó: U.þ.b. 20 m við upphaf, um 488 m hæst, um 0 m við lok Samanlögð hækkun: Verður skráð að hlaupi loknu Vegalengd: Um 10,00 km Tími: Verður skráður að hlaupi loknu Meðalhraði: Verður skráður að hlaupi loknu Dags.: Þriðjud. 4. júlí 2023, kl. 15:30 (eða að loknu hlaupi yfir Tunguheiði í Sléttuhreppi) Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir
Fróðleikur um leiðina (enn í smíðum):
Leiðin yfir Háuheiði er bæði sögð vera „dáskemmtileg“ og „góð og falleg“ (GÁG, bls. 95). Þarna ætti því að vera gaman að hlaupa. Hlaupið hefst rétt innan við Glúmsstaði í Fljótavík. Þar þótti harðbýlt, mjög snjóþungt á vetrum og tók seint upp. Beitiland var gott á sumrin og mikill silungur í ám og vötnum, en öðrum hlunndinum varla til að dreifa. En landið er „íðilfagurt“ ef marka má Árbók Ferðafélagsins frá 1994. Síðast var búið á Glúmsstöðum um 1920.
Upphafspunktur leiðarinnar upp á Háuheiði er örlítið á reiki. Á sumum kortum virðist leiðin vera teiknuð upp með Fossá og fram hjá Glúmsstaðafossi, en líklegra er að lagt sé af stað nokkru utar og nær Glúmsstaðabænum, því að þannig má losna við mesta brattann upp með Fossá. Í öllu falli er stefnan tekin nánast beint í suður inn Glúmsdal og ánni fylgt að mestu eftir að komið er vel upp fyrir fossinn.
Leiðin úr botni Glúmsstaðadals og upp á heiðina er býsna brött, en heiðin frekar flöt þegar upp er komið. Einhverjar vörður eiga að vera þarna í brúninni og uppi á heiðinni, jafnvel bæði þéttar og stæðilegar, en hvorki vörður né greinileg gata eftir það. Af þessum sökum er leiðin ekki auðrötuð, en í góðu skyggni ætti Kagrafell hins vegar að sjást sem öruggt kennileiti framundan og lítið eitt til hægri. Leiðin liggur enn nánast beint í suður og niður með Kagrafelli að austanverðu (vinstra megin við fjallið). Þar er tekið að halla vel undan fæti áleiðis niður Lönguhlíðardal að Hesteyri þar sem hlaupið endar.
Ferðasagan:
Verður skráð að hlaupi loknu.
Lokaorð:
Verða skráð að hlaupi loknu.
Helstu heimildir:
- Guðrún Ása Grímsdóttir (1994): Ystu strandir norðan Djúps. Um Kaldalón, Snæfjallaströnd, Jökulfirði og Strandir. Árbók Ferðafélags Íslands 1994. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
- Gunnar Þórðarson (á.á): Gönguleiðin frá Glúmsstöðum að Bæjarnesi. Fljótavík.is. https://www.fljotavik.is/gongulysingar/gth-glumstadir-ad-baejarnesi.
- Helgi M. Arngrímsson o.fl. (2009): Vestfirðir og Dalir 1. Hornstrandir/Jökulfirðir. Gönguleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
- Hornstrandir.is (á.á): Átthagafélag Sléttuhrepps. http://www.hornstrandir.is/atthagafelag_slettuhrepps.