Sandvíkurskarð og Gerpisskarð

Staðsetning: Frá Stuðlum í Viðfirði að Vöðlum í Vöðlavík
Hnattstaða: 
Upphaf:        N65°06,48' - V13°57,06'
Sandvíkurskarð:    N65°05,92' - V13°34,43'
Sandvík (neyðarskýli): N65°05,35' - V13°33,27'
Gerpisskarð:      N65°03,10' - V13°33,57'
Lok:          N65°02,14' - V13°36,92'
Hæð y. sjó: x m við upphaf, 670 m hæst => Hækkun xxx m
Vegalengd: Áætluð um 10 km
Tími: (xxxxx)
Meðalhraði: (xxxxx)
Dags.: Miðvikudag 7. júlí 2021, kl. 13:30 (eða þar um bil) 
Hlaupafélagar: Vonandi sem flestir

Fróðleikur um leiðina:

Eins og nöfnin benda til eru Sandvíkurskarð og Gerpisskarð tveir fjallvegir en ekki einn. Þeir eru hins vegar báðir svo stuttir að nauðsynlegt þótti að slá þeim saman til að þeir féllu betur að fjallvegahlaupaverkefninun (þar sem 9 km er lágmarksvegalengd).

Eyðibýlið Stuðlar stendur innarlega á Barðsnesi, spölkorn út með Viðfirði að austanverðu, tæpa 4 km frá Viðfjarðarbænum. Þaðan er hlaupið sem leið liggur til fjalls, upp gamla hestagötu með stefnu í suðaustur. Þessi gata var á sínum tíma aðalleiðin á milli bæjanna í Viðfirði og Sandvík, jafnt um sumar sem vetur, og nú er stikuð gönguleið þarna yfir.

Leiðin frá Stuðlum upp í skarðið er varla meira en 2 km, aflíðandi lengst af en býsna brött síðasta spölinn. Sjálft skarðið er í u.þ.b. 500 m hæð yfir sjó og þar uppi er mjög víðsýnt þegar skyggni er á annað borð gott. Áfram er svo haldið í sömu stefnu niður brekkurnar Sandvíkurmegin, að neyðarskýlinu í Sandvík. Niðurleiðin er álíka löng og uppleiðin, nokkuð brött en greiðfær.

Sandvík var lengi austasta mannabyggð á Íslandi og þar var búið á fimm bæjum fram á 20. öld. Sá síðasti þeirra fór í eyði 1946. Lítil verstöð var á Skálum við sunnanverða víkina um tíma á 3. áratug 20. aldar. Nokkrum sögum fer að draugagangi í Sandvík. Þar gekk Sandvíkur–Glæsir um á kjólfötum, reykti pípu og tók ofan höfuðið í kurteisisskyni.

Frá neyðarskýlinu er hlaupið áfram til suðausturs og eftir u.þ.b. 1 km er komið að Sandvíkurá. Hún er oftast vatnslítil og jafnvel hægt að stikla þar yfir þurrum fótum. Áfram er svo haldið til suðurs þvert yfir láglendið í Sandvík og framhjá fornbýlunum Fífustöðum og Þorljótsstöðum. Eftir um 1 km í viðbót fer landið hækkandi á ný. Þegar komið er upp í tæplega 300 m hæð væri hægt að beygja til vinstri inn á gönguleið út á Gerpi, sem er austasti oddi Íslands. Hér er hins vegar ekki gert ráð fyrir þeim útúrdúr, heldur hlaupið áfram suður á bóginn með Sandvíkurvatn á vinstri hönd. Þegar vatnið er að baki liggur leiðin síðan upp í Gerpisskarð í u.þ.b. 670 m. Þar er ægifagurt útsýni ef marka má texta á gönguleiðakorti Ferðafélags Fjarðamanna. Úr Gerpisskarði er hlaupið um bratt gil niður í Gerpisdal og á þeim kafla þarf að fara að öllu með gát. En leiðin er engu að síður greiðfær. Úr Gerpisdal sést vel út í Seley og Gerpi. Úr Gerpisdal er síðan fylgt götum inn með hlíðinni og fyrir mynni Tregadals, beinustu leið til bæjar að Vöðlum. Þar endar hlaupið.

Ferðasagan:  

Verður skráð að hlaupi loknu

Nesti og annar búnaður:

Verður skráð að hlaupi loknu

Lokaorð:

Verða skráð að hlaupi loknu

Helstu heimildir:

 • Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum (2002): Gönguleiðir á Fjarðaslóðum – austast á Austfjörðum. Gönguleiðir á Austurlandi II. Ferðafélag Fjarðamanna Austfjörðum.
 • Hjörleifur Guttormsson (2005): Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar. Árbók Ferðafélags Íslands 2005. Ferðafélag Íslands, Reykjavík.
 • Ína Dagbjört Gísladóttir (2001): Austast á Austurlandi. Í heimkynnum trölla, hafvætta og sjódrauga. Morgunblaðið 20. janúar 2001. http://www.mbl.is/greinasafn/grein/584488.
 • Norðfirðingafélagið (2013): Af norðfirskum stofni.
  http://www.nordfirdingafelagid.is/2204642109/frettir/2204642109/182/af-nordfirskum-stofni.
 • Þorsteinn Jósepsson, Steindór Steindórsson, Björn Þorsteinsson og Guðjón Ármann Eyjólfsson (1984): Landið þitt Ísland, 5. bindi, U-Ö. Bókaútgáfann Örn og Örlygur hf.