Bæjardalsheiði

Staðsetning: Frá Bæ í Króksfirði að Víghóli í Arnkötludal
Áfangar og hnattstaða:
Upphaf:                       0,00 km ( 76 m), N65°30,71' - V21°58,55'
Lambavatn syðsta (útfall):    6,10 km (354 m), N65°32,94' - V21°54,38'
Sunnan við Lambavatn nyrsta:  7,70 km (370 m), N65°33,52′ – V21°53,15′
Þrívörður:                   11,50 km (460 m), N65°34,40' - V21°50,99'
Lok:                         14,44 km (220 m), N65°34,60' - V21°47,44'
Hæð y. sjó: 76 m við upphaf, 460 m hæst, 220 m við lok
Samanlögð hækkun: 461 m
Vegalengd: 14,44 km
Tími: 2:37:05 klst
Meðalhraði: 5,52 km/klst (10:53 mín/km)
Dags.: 01.07.2017, kl. 11:06
Hlaupafélagar: 
Birkir Þór Stefánsson
Guðmundur Magni Þorsteinsson
Gunnar Viðar Gunnarsson
Hrafnhildur Þorsteinsdóttir
Ingibjörg Emilsdóttir
Kolbrún Unnarsdóttir
Lilja B. Ólafsdóttir
Sigríður Drífa Þórólfsdóttir

Fróðleikur um leiðina: 

Leiðin yfir Bæjardalsheiði er ein nokkurra leiða sem menn gátu valið um á árum áður þegar þeir áttu erindi úr Reykhólasveit til Hólmavíkur, t.d. í verslunarleiðangra eftir að lauaskaupmenn hófu að stunda verslun í Skeljavík upp úr miðri 19. öld og eftir að Hólmavík fékk verslunarréttindi með konungsbréfi 3. janúar 1890. Tröllatunguheiði er dálítið austar og Laxárdalsheiði dálítið vestar, þ.e.a.s. sú Laxárdalsheiði sem sagt er frá í Fjallvegahlaupabókinni frá 2017 (leið nr. 5).

Hlaupaleiðin hefst rétt vestan við Bæ í Króksfirði, nánar tiltekið á vegarslóða sem liggur frá Vestfjarðavegi um 4,4 km vestan við vegamótin þar sem beygt er upp á Þröskulda. Rétt eftir að hlaupið hefst greinist slóðinn og þá þarf að halda sig til vinstri. Áfram er svo hlaupið til norðurs inn Bæjardal og upp með Bæjardalsá. Eftir u.þ.b. 2,7 km er sveigt lítið eitt til hægri, þ.e. til norðausturs, og haldið á brattann upp með Einangursgili. Vegarslóðanum er svo fylgt áfram til norðausturs upp á heiðina þar til komið er að þremur vötnum sem nefnast Lambavötn, vestan við svonefndar Bláfjallabrúnir. Leiðin liggur á vesturbakka vatnanna, (þ.e.a.s. vinstra megin við þau þegar hlaupið er sunnan frá).

Eftir 6,1 km hlaup er komið að útfallinu úr syðsta vatninu en það fellur til vesturs úr miðju vatni í frekar vatnsmiklum læk. Áfram er svo haldið inn með vötnunum að vestanverðu og slóðanum fylgt enn um stund. Þegar komið er framhjá miðvatninu (vatni nr. 2) eru um 7,7 km að baki. Þar er beygt til hægri (til austurs) milli miðvatnsins og þess nyrsta og stefnan tekin upp grýtt holt með stefnu á Þrívörður sunnan við Miðheiðarborg (494 m). Vestur af Miðheiðarborg er allstórt vatn Gedduvatn. Þangað liggur leiðin þó ekki, enda kváðu þar þrífast afar hættulegir fiskar, svonefndar eiturgeddur. Þær eru bláar á lit, eða kannski gylltar, og svo eitraðar að þær brenna gat á hvern þann flöt sem þær eru lagðar á, jafnvel löngu eftir að þær eru dauðar.

Við Þrívörður er hæsti punktur leiðarinnar og þangað eru líklega um 10,4 km frá upphafspunkti hlaupsins ef rétt leið hefur verið valin. Frá Þrívörðum er í raun hægt að velja um þrjár mismunandi leiðir norður af heiðinni og niður í Arnkötludal og allar eru þessar leiðir varðaðar að einhverju leyti. Greinilegasta leiðin liggur áfram nokkurn veginn beint út fjallið, en þar hlóð Fjallvegafélagið upp vörður á sínum tíma, líklega seint á 19. öld. Hlaupaleiðin fylgir hins vegar þeirri leið sem líklega var fjölförnust fyrr á öldum, þ.e.a.s. innstu leiðinni. Þar stendur reyndar lítið eftir af merkingum nema lúin vörðubrot og slóðin víðast orðin máð. Þessi leið liggur í austnorðaustur frá Þrívörðum, rakleiðis niður í Arnkötludal með stefnu á Víghól á vesturbakka Arnkötludalsár. Áin er vaðin skammt ofan við hólinn og handan við ána lýkur hlaupinu á svolitlu útskoti frá aðalveginum niður dalinn. Þaðan eru um 18 km til Hólmavíkur.

Í Fóstbræðrasögu er sagt frá því þegar Þorgeir Hávarsson skrapp um öndverðan vetur frá Reykhólum norður að Hrófá í Steingrímsfirði til að drepa mann fyrir kónginn. Að loknu verki fór hann svo aftur að Reykhólum, eins og hann gerði gjarnan þegar hann var búinn í vinnunni. Til eru sagnir af því, þó að þess sé ekki getið í Fóstbræðrasögu, að honum og mönnum hans hafi verið veitt eftirför frá Hrófá og að slegið hafi í brýnu á Víghóli. Þar var barist með bareflum og grjóti, enda nóg til af því á svæðinu. Þrír lágt settir menn eiga að hafa týnt lífi í þessum átökum og verið dysjaðir í urðinni skammt frá hólnum, þar sem síðan heitir Dys.

Tveir bæir voru í byggð í Arnkötludal fram eftir 20. öldinni. Rúmum 3 km neðan við endapunkt hlaupsins yfir Bæjardalsheiði má sjá rústir eyðibýlisins Vonarholts á árbakkanum rétt fyrir neðan veginn. Síðustu ábúendurnir þar voru hjónin Sigurður Helgason og Guðrún Jónatansdóttir. Þau fluttu frá Vonarholti árið 1935 og settust að í Arnkötludal, einni bæjarleið neðar í dalnum. Þaðan fóru þau líka síðust manna árið 1957 þegar þau færðu sig niður að Hrófá þar sem þau bjuggu eftir það. Síðan þá hefur enginn búið í dalnum.

Ferðasagan:

Hlaupið yfir Bæjardalsheiði var hluti af svonefndu Hamingjuhlaupi sem haldið hafði verið árlega frá því á árinu 2009 í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Í Hamingjuhlaupinu var alla jafna hlaupin ný leið á hverju ári, en hlaupin enduðu alltaf á Hólmavík. Fjallvegahlaupið yfir Bæjardalsheiði endaði við Víghól í Arnkötludal og þá tók við 18 km endasprettur Hamingjuhlaupsins. Hamingjuhlaupin fylgdu jafnan fyrir fram gerðri tímaáætlun, sem líkja má við áætlun strætisvagna. Hugsunin var að þá gæti fólk slegist í hópinn á tilteknum stöðum þegar liði á hlaupið. Þetta þurftu þátttakendur í fjallvegahlaupinu yfir Bæjardalsheiði að hafa á bak við eyrað.

Tímaáætlun Hamingjuhlaupsins 2017.

Við hjónin gistum á Hólmavík nóttina fyrir hlaup og á laugardagsmorgninum var Gitta í hlutverki bíltjórans á leiðinni suður yfir Þröskulda. Um kl. 11 hafði fjölgað talsvert í hópnum og þegar allir voru tilbúnir lögðum við af stað úr Króksfirði níu saman. Fyrstu kílómetrarnir voru auðveldir yfirferðar en við fórum okkur þó að engu óðslega. Eftir u.þ.b. 23 mín. hlaup vorum við komin á þann stað þar sem beygt er upp með Einangursgili.

Allt tilbúið í Króksfirði. F.v. Guðmundur, Kolbrún, Lilja, SG, Ingibjörg, Gunnar, Birkir, Sigríður og Hrafnhildur. (Ljósmynd: Birgitta Stefánsdsóttir).
Nýlögð af stað. Birkir fremstur. Borgarlandið í baksýn vinstra megin við miðja mynd.
Slóðinn til vinstri er rétti slóðinn áleiðis inn í Bæjardal.
Birkir á leið upp með Bæjardalsá. Tæpir 2 km að baki.
Stokkið yfir læk neðan við Einangursgil, (sem sést þó ekki á myndinni).
Hér var landið aðeins farið að hækka. 3,5 km að baki. Í baksýn glittir í Bæjardalsá.
Kolbrún og Lilja á uppleið. Til hægri sést í brún Einangursgils.

Fátt bar til tíðinda á leiðinni upp að Lambavatni. Veðrið hentaði vel til hlaupa, næstum því logn, örlítil rigning af og til og einhver þokuslæðingur á fjöllum. Auðvitað er enn meira gaman að hlaupa í björtu veðri þegar skyggni af fjallvegum er gott, en það væsir ekki um neinn á sumardegi sem þessum þótt skýin séu í þyngra lagi.

Syðsta Lambavatnið var á sínum stað og allt stemmdi vel við GPS-punktana sem ég átti í fórum mínum. Við útfallið vestur úr vatninu var 6,1 km að baki, hæðarmælirinn sýndi 354 m og klukkutími var liðinn frá því að lagt var af stað úr Króksfirði. Þetta var allt í rólegri kantinum, sem gerði ekkert til að öðru leyti en því að nú mátti lítið út af bera til að takast mætti að halda tímaáætlun Hamingjuhlaupsins.

Það kom okkur á óvart hversu vatnsmikið útfallið úr vatninu var og það tók svolitla stund að finna bestu leiðina yfir. Reyndar er það oftast svo þar sem hlaupið er eftir vegarslóðum að best er að fylgja slóðanum yfir á vaðinu, nema þar sem hægt er að stökkva yfir þurrum fótum. Eftir að yfir var komið héldum við áfram ferð okkar sem leið lá eftir slóðanum inn með vötnunum.

Gunnar við útfallið úr syðsta Lambavatninu rétt neðan við vaðið. Rúmir 6 km og einn klukkutími að baki. Handan við vatnið rís Bláfjallabrún. Þoka á heiðinni.
Kolbrún í fararbroddi á móts við norðurenda Lambavatns nr. 2. Þarna hefðum við átt að beygja til hægri.

Við suðurenda þriðja og nyrsta vatnsins voru 7,7 km að baki og 1:17 klst. liðnar frá upphafi hlaupsins. Klukkan var orðin nákvæmlega 12:26, sem þýddi að við vorum orðin 6 mínútum á eftir Hamingjuhlaupsáætluninni. Þarna hafði ég gert ráð fyrir að við myndum færa okkur yfir á austurbakkann, en þegar til átti að taka sáum við enga greinilega leið yfir mýrina milli vatnanna. Hins vegar hélt slóðinn áfram á vesturbakkanum. Við ákváðum að fylgja honum enn um sinn, en það voru mistök eins og síðar kom í ljós.

Um það leyti sem við vorum komin á móts við norðurenda nyrsta Lambavatnsins voru 8,2 km og 1:23 klst. að baki. Þarna var okkur farið að gruna að gatan sem við ákváðum að fylgja væri villigata, en norður af vatninu voru mýrasund, tjarnir og skorningar sem engin leið virtist að komast austur yfir. Við héldum því okkar striki enn um sinn, enda eru fjallvegahlauparar stundum frekar tregir til að snúa við. Við hlutum að finna færa leið austur yfir sundin fyrr en varði. 

Á villigötum. Lambavötnin að baki og ekki hægt um vik að komast á réttu leiðina á hjallanum hinum megin við vötnin. Þarna voru um 8,7 km og 1:30 klst. að baki.

Um þetta leyti komum við að manngerðum skurði sem sjálfsagt hefur verið grafinn þarna til að hafa áhrif á fiskgengd í vötnunum. Yfir hann komumst við og enn lengdist villugatan til norðurs.

Leitað að heppilegri leið yfir óvæntan skurð.

Þegar 10,4 km og 1:46 klst. voru að baki vorum við komin norður fyrir enn eitt vatnið og þar virtist loks tækifæri til að rétta okkur af. Við beygðum því til hægri þvert úr leið og tókum stefnuna til suðausturs á langþráðan GPS-punkt á Þrívörðum. Eftir á að hyggja vorum við þarna komin alveg að suðurenda Gedduvatns, en þangað ætluðum við ekkert að fara. Fyrst lá leiðin yfir blautan skorning á milli vatna og hinum megin tók við brött, stórgrýtt og afar seinfarin hlíð.

Við Þrívörður sýndi GPS-úrið 11,52 km og 2:03 klst. Það þýddi að við höfðum tapað u.þ.b. 1,1 km á villunni og vorum orðin 23 mín. á eftir áætlun. Við því var ekkert að gera, annað en að flýta sér til byggða. Stefnan var tekin á Víghól og hlaupið því sem næst beint af augum. Rákust á gömlu leiðina annað slagið en gáfum okkur annars lítinn tíma til að virða umhverfið fyrir okkur. Þokan var heldur ekki langt undan og því svo sem ekki mikið að sjá.

Guðmundur Magni kominn fram hjá Þríhnjúkum og vel áleiðis niður í Arnkötludal. Þoka í nánd.
Grjótið á heiðinni að baki og ekki nema steinsnar á leiðarenda.
Birkir horfir niður Arnkötludal. Greina má Víghól vinstra megin við miðja mynd, hægra megin við hann rennur Arnkötludalsá og handan við hana sést í veginn niður af Þröskuldum.

Þegar hér var komið sögu var ekkert annað eftir en að vaða vatnslitla Arnkötludalsána og brölta upp á veginn hinum megin. Þar lauk þessu fjallvegahlaupi sem varð rúmum kílómetra lengra en ætlað var og tók aðeins lengri tíma en að var stefnt. En slík frávik eru aukaatriði. Útivistin stóð fyrir sínu og í hópnum var líka fólk sem var þarna að takast á við meiri áskoranir í hlaupum en það hafði áður gert. Það er gaman að vera með í slíku.

Lokaorð:

Bæjardalsheiði er hentug hlaupaleið að því leyti að hún er tiltölulega stutt og ekki ýkja erfið yfirferðar. Syðri hluti leiðarinnar er meira að segja mjög greiðfarinn, en eftir að vegarslóðanum sleppir tekur heldur hrjóstrugt landslag við. Heiðin fer ekki á lista yfir fallegustu eða skemmtilegustu hlaupaleiðirnar, en allt hefur sinn sjarma. Sjarminn hefði þó sjálfsagt verið meiri ef við hefðum annars vegar rambað á rétta leið og hins vegar verið laus við þokuna.

Helstu heimildir:

  • Hafdís Sturlaugsdóttir (2017): Tölvupóstar og samtöl.
  • Helgi M. Arngrímsson (2007): Vestfirðir og Dalir 6 – Útivera. Göngu- og reiðleiðakort. Ferðamálasamtök Vestfjarða.
  • Jón Torfason o.fl. (ritstj.) (1985): Fóstbræðra saga. Íslendingasögur. Svart á hvítu, Reykjavík. Bls. 775-851.
  • Matthías Lýðsson (2010): Lítið eitt um Arnkötludal.
    https://strandir.saudfjarsetur.is/litid-eitt-um-arnkotludal/.

Þakkir:

  • Birgitta Stefánsdóttir fyrir flutninga og aðstoð
  • Hafdís Sturlaugsdóttir í Húsavík fyrir GPS-hnit og upplýsingar um leiðina
  • Matthías Lýðsson í Húsavík fyrir fróðleik um leiðina